„Fyrir það fyrsta við ég bara fagna þessari skýrslu, ég held að hún sé mjög mikilvægt innlegg í þessa umræðu,“ segir Gylfi Arnbjörnsson, forseti Alþýðusambands Íslands, aðspurður um viðbrögð við úttektarskýrslu Landssambands lífeyrissjóða sem kynnt var í gær föstudag. Hann bætir því við að ASÍ hafi átt ákveðið frumkvæði að því að farið yrði út í þá vinnu sem liggur að baki skýrslunni.
Í skýrslunni kemur meðal annars fram að lífeyrissjóðirnir hafi samtals tapað tæplega 480 milljörðum króna á árinu 2008-2010 og er í henni sett fram veruleg gagnrýni á stjórnun og starfshætti lífeyrissjóða eins og lesa má ítarlega um í Morgunblaðinu í dag.
Til að mynda kemur fram að takmarkað eftirlit hafi verið með fjárfestingum lífeyrissjóðanna og hvernig að þeim var staðið. Stjórnendur sjóðanna hefðu átt að vera betur á varðbergi gagnvart fjárfestingunum. Þá hafi sumar stjórnir verið óþægilega meðvirkar.
Lífeyrissjóðirnir dregnir á tálar
„Það skiptir mjög miklu máli fyrir okkur í verkalýðshreyfingunni að það ríki sátt um starfsemi sjóðanna. Þeir varsla mjög mikilvæg réttindi okkar félagsmanna og auðvitað þarf að ríkja um starfsemi þeirra traust,“ segir Gylfi.
Hann segir að þegar skýrslan sé skoðuð sé ljóst að það sé ýmislegt vitað í dag um þessi mál sem ekki var vitað áður. Hins vegar sé vissulega bent á ýmis atriði í henni sem hefði betur mátt fara „ef menn hefðu horft öðruvísi á stöðuna.“ Það sé mikilvægt að læra af því.
„Það koma þarna fram upplýsingar sem eru nýjar að því leyti að það er búið að tengja saman alla sjóðina varðandi mat á þessum tengdu aðilum eins og Kaupþing og Exista-hópinn og Glitni og Baugs-hópinn sem kom að sumu leyti fram í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis og kom í ljós fyrir okkur öll held ég, bæði á vettvangi stjórnmálanna, aðila vinnumarkaðarins eða lífeyrissjóðanna og bara almennings alls, að það voru í ríkara mæli eignatengsl sem hafa verið dulin okkur og eru nú tilefni ákæru meðal annars af hálfu sérstaks saksóknara og það er ljóst að það munu vera einhver málaferli um með hvaða hætti fjárfestar á markaði voru dregnir á tálar og þar með talið lífeyrissjóðirnir,“ segir Gylfi.
Erlendar eignir sjóðanna mótvægi
„Það er hins vegar ljóst að meginástæðan fyrir tapi lífeyrissjóðanna er tap bankahrunsins. Þó það er eitt og annað sem við hefðum getað staðið öðruvísi að og kannski fyrr viðurkennt það að íslenskur hlutabréfamarkaður væri of grunnur og áhættusamur,“ segir Gylfi.
Fyrir vikið hefðu lífeyrissjóðirnir hugsanlega átt að losa fjármuni og fara með þá erlendis í ríkari mæli en á hinn bóginn hafi sjóðirnir verið mjög stórir á markaðinum og ef þeir hefðu allir tekið ákvörðun um að losa sig við innlendar eignir þá hefði ef til vill ekki orðið mikið eftir að innlenda markaðinum.
Hann leggur hins vegar áherslu á að þrátt fyrir mikið tap lífeyrissjóðanna hafi erlendar eignir þeirra virkað sem mótvægi í þeim efnum og hann telur nauðsynlegt að horfa heildstætt á fjárfestingastefnu sjóðanna. Þannig verði einnig að horfa til þeirra fjárfestinga sem skiluðu sér en ekki aðeins þeirra sem leiddu til taps.
Fylgt sé íhaldssamri fjárfestingastefnu
Gylfi segist sammála því að ástæða sé til þess að fara yfir lög um starfsemi lífeyrissjóða og ennfremur að rétt sé að setja siðareglur í þeim efnum sem ýmsir af sjóðunum hafi raunar verið farnir að gera talsvert fyrir hrun. Hann segist þó ekki sammála þeirri gagnrýni sem komi í skýrslunni fram á stjórnarkjör í lífeyrissjóðum. Það séu félagsmenn í sjóðunum sem í raun kjósi stjórnarmenn.
„Við teljum að það eigi að vera íhaldsöm og aðhaldssöm stefna varðandi fjárfestingar. Við teljum reyndar að það hefði farið betur ef bankarnir hefðu haft þau lög sem giltu um lífeyrissjóðina vegna þess að þá hefði ekki orðið neitt hrun bankakerfisins,“ segir Gylfi. Borið saman við allar aðrar fjármálastofnanir í landinu hafi lögin um lífeyrissjóðina eftir sem áður komið í veg fyrir að lífeyrissjóðirnir töpuðu 70-80% eigna sinna.
„Þetta er mjög mikilvæg skýrsla og það er mjög margt þarna sem við þurfum að taka á en þó mikil gagnrýni komi fram í henni, sem eðlilegt er, þá dregur hún líka það fram að það hafi ekki komið fram í þessari rannsókn sem beinist sérstaklega að stjórnun eða starfsháttum varðandi óeðlileg tengsl eða starfshætti. Það er meiri í formi þess að það hefði kannski betur mátt vera fyrr með skýrari ákvæði um áhættumat og slíkt. Og það tek ég bara undir,“ segir Gylfi.