Hreyfingin: Manning fái Nóbelinn

Bradley Manning fyrir miðri mynd.
Bradley Manning fyrir miðri mynd. Reuters

Þinghópur Hreyfingarinnar hefur tilnefnt Bradley Manning til friðarverðlauna Nóbels.  Manning er sakaður um að hafa afhent Wikileaks trúnaðarskjöl frá bandaríska hernum, m.a. myndskeið sem sýnir þyrluflugmenn skjóta á borgara í Írak.

Í bréfi þinghóps Hreyfingarinnar til Nóbelsnefndarinnar segir að Manning hafi komið upp um þá gríðarlegu spillingu sem viðgangist innan bandaríska hersins. Með uppljóstrununum hafi brotist út mikil frelsisbylting víða um heim, m.a. byltingin í Túnis. Arabíska vorið hafi orðið að veruleika og Bandaríkjaforseti ákveðið að draga herlið sitt til baka frá Írak.

Þinghópurinn bendir í bréfi sínu á að Manning hafi verið í haldi bandarískra yfirvalda í ár án réttarhalda. Í tíu mánuði hafi hann verið í einangrun.

Heimsbyggðin stendur í þakkarskuld við Wikileaks, segir í bréfinu, fyrir að svipta hulunni af því sem gerst hefur í Írak.

„Því hvetjum við nefndina til að veita Bradley Manning þessi mikilvægu verðlaun,“ segir í bréfinu en undir það rita Birgitta Jónsdóttir, Margrét Tryggvadóttir og Þór Saari.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert