Af 41 konu með PIP-brjóstapúða sem hefur verið ómskoðuð eru 34 með leka púða. Samsvarar fjöldinn því að rúmlega 80% kvennanna séu með leka púða en gert hafði verið ráð fyrir að hlutfallið myndi nema frá 1-7%.
Eftir að hafa yfirfarið nýja skýrslu frá vísindanefnd Evrópusambandsins um nýjar og vaxandi heilsuvár sem kom út á fimmtudag hefur landlæknir sent velferðarráðuneytinu bréf þar sem mælt er með því að allir PIP-brjóstapúðar verði fjarlægðir úr þeim konum sem þá hafa.
Í umfjöllun um þetta mál í Morgunblaðinu í dag segir Ragnheiður Haraldsdóttir, forstjóri Krabbameinsfélagsins, ómskoðanirnar, sem hófust á fimmtudag, hafa gengið vonum framar. Landlæknir hefur ákveðið að mæla með því að allir púðar verði fjarlægðir úr konum en það er m.a. mat skýrsluhöfunda vísindanefndar ESB að fyrirbyggjandi brottnám púðanna sé skaðminna en brottnám eftir að þeir byrja að leka.
Áætlaður kostnaður við hverja aðgerð er 200 þúsund krónur og mun heildarkostnaður við þær því nema allt að 88 milljónum. Ekki verður greitt fyrir nýja púða, að sögn ráðherrans. „Nei, það stóð aldrei til að við myndum bera kostnaðinn af nýjum púðum.“