Krefjast aðgerða strax

Séð frá Hornbjargi suður Strandir. Snjóþungt er oft á þessum …
Séð frá Hornbjargi suður Strandir. Snjóþungt er oft á þessum slóðum. mbl.is

„Í dag býr sveit­ar­fé­lagið við þær aðstæður að eiga að vera eyja þrjá mánuði á ári," seg­ir í frétta­til­kynn­ingu sem Odd­ný S. Þórðardótt­ir, odd­viti Árnes­hrepps á Strönd­um, sendi frá sér í dag.

Hún bend­ir á að sveit­ar­fé­lagið búi í dag við svo­kallaða G-reglu varðandi snjómokst­ur, en skv. upp­lýs­ing­um á heimasíðu Vega­gerðar­inn­ar eru slík­ir veg­ir ein­ung­is þjón­ustaðir á vor­in og haust­in þegar mokst­urs er þörf. Eng­in þjón­usta er yfir há­vet­ur­inn.

„Hluti íbúa sveit­ar­fé­lags­ins býr við al­gjöra inni­lok­un þessa þrjá mánuði á ári. Hrepps­nefnd hef­ur ít­rekað beðið um að hrepp­ur­inn verði færður upp í  F-reglu, sem ekki er talið hægt, þar sem veg­ur­inn sé ekki þjón­ustu­fær,“ seg­ir í til­kynn­ing­unni.

Þegar átt er við F-reglu þá væri veg­ur­inn þjón­ustaður tvo daga í viku. Fram kem­ur í til­kynn­ingu frá Árnes­hreppi að veg­ur­inn þarfn­ist upp­bygg­ing­ar, en hann var rudd­ur með jarðýtu á ár­un­um 1960-1965. Vill hrepps­nefnd­in að byrjað verði að byggja veg­inn upp á erfiðum köfl­um á fyr­ir­huguðu framtíðar­veg­stæði.

„Nú er okk­ur alltaf núið því um nas­ir að við séum svo fá. En eins og góður maður sagði: „Veg­ur­inn er ekki bara fyr­ir íbúa Árnes­hrepps held­ur alla lands­menn og er­lenda gesti líka.“ Í sveit­ar­fé­lag­inu Árnes­hreppi eru um 40 sum­ar­hús í eigu einkaaðila, þessi hús eru flest heils­árs­hús og stór­ar fjöl­skyld­ur sem standa að þeim,“ seg­ir að auki í frétta­til­kynn­ing­unni.

Þá er bent á að upp­bygg­ing ferðaþjón­ustu hafi verið mik­il og að þær fjár­fest­ing­ar skili litl­um arði á meðan ekki er fært á staðinn. Einnig er bent á að Norður­fjarðar­höfn er í sveit­ar­fé­lag­inu og að þaðan sé stutt á gjöf­ul fiski­mið. Odd­vit­inn seg­ir að ein­hvers staðar sé vit­laust gefið og krefst aðgerða strax.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert