Stóra systir hefur sent frá sér tilkynningu þar sem segir m.a. að þar sem nú hafi verið gefnir út límmiðar til að líma yfir þau samfélagsvandamál sem fólk vill ekki horfast í augu við, hafi hún ákveðið að láta ekki sitt eftir liggja.
„Nú þarf enginn lengur að hafa áhyggjur af því sem fram fer inni á Strawberries og Goldfinger, það er búið að klístra yfir það með gulum límmiðum. Ó já,“ segir í tilkynningu frá Stóru systur.
„Lögreglan getur auðvitað ekki lokað augunum fyrir því sem miður fer eins og við hin. En þar sem Stóra systir hefur sérstaka samúð með lögreglunni og álaginu sem á henni hvílir ákvað hún að hjálpa til þar á bæ líka. Stóra systir hefur komið fyrir gulum borðum sem merkja vettvang glæps, bæði í Reykjavík og í Kópavogi, og auðvelda lögreglunni að mæta á svæðið og hefja rannsókn,“ segir einnig.
18. október síðastliðinn afhenti neðanjarðarhreyfingin Stóra systir lögreglu höfuðborgarsvæðisins lista með 56 nöfnum, 117 símanúmerum og 29 netföngum karlmanna sem föluðust eftir vændi í gegnum vefsíðurnar einkamál.is og mypurplerabbit.com, Rauða torgið og nuddauglýsingar Fréttablaðsins.
Hreyfingin hefur skorið upp herör gegn vændiskaupendum og segist ætla að nýta sér þá staðreynd að þeir óttist ekkert meir en að upp um þá komist.