Að áliti úttektarnefndar Landssamtaka lífeyrissjóða er mjög nauðsynlegt að farið verði út í allsherjarendurskoðun á lögum sem gilda um lífeyrissjóði landsins og að um leið verði lífeyrissjóðakerfið í heild endurskipulagt.
Þetta kom fram í ræðu Hrafns Bragasonar, fyrrverandi hæstaréttardómara og formanns nefndarinnar, sem hann flutti á Grand hóteli í gær þegar nefndin kynnti skýrslu sína um starfsemi lífeyrissjóðanna í aðdraganda bankahrunsins.
Hrafn hóf fundinn í gær með því að fara yfir sumar af helstu úrbótatillögunum sem nefndin leggur fram í skýrslu sinni. Hann tók jafnframt fram að endurskoðendur lífeyrissjóðanna virtust ekki hafa talið það í sínum verkahring að fylgjast með aðferðum stjórnenda lífeyrissjóðanna við að meta fjárfestingar og gæði þeirra.
Að sögn Hrafns telur nefndin að mikilvægt sé að endurhugsa lagaumhverfi endurskoðendanna og herða eftirlitshlutverk þeirra, m.a. með því að gera þá sjálfstæðari í störfum sínum en nefndin telur að slíkt megi hugsanlega gera á þann hátt að láta Fjármálaeftirlitið framvegis skipa endurskoðendur fyrir lífeyrissjóðina.
Ein af tillögum nefndarinnar er að hluti stjórnarmanna í lífeyrissjóðum verði kosinn beinni kosningu á ársfundum. „Almenna reglan er sú að eigendur réttindanna eiga enga fulltrúa í stjórnum lífeyrissjóðanna og það er bundið í samþykktir þeirra hvernig kjósa á til stjórnar,“ sagði Guðmundur Heiðar Frímannsson.