Sleðahópar úr björgunarsveitum Slysavarnafélagsins Landsbjargar eru nú á leið í útkall í fjallshlíðum Esju. Tilkynning barst frá vélsleðamönnum rétt eftir klukkan hálftvö um að einn þeirra hefði orðið fyrir óhappi og þeir þyrftu aðstoð.
Viðkomandi fékk höfuðhögg þegar hann féll af sleða sínum á akstri og kvartar yfir verk í höfði, hálsi og baki. Björgunarsveitarmenn munu fara frá skíðasvæðinu og aka þaðan yfir Skálafell og að slysstað sem er í hlíðum Móskarðshnjúka.
Alls taka um 20 björgunarsveitarmenn þátt í aðgerðinni sem reiknað er með að gangi vel enda færi og veður hið ákjósanlegasta. Þyrla LHG var á æfingaflugi og hefur verið beint á staðinn til aðstoðar.