„Nauðsynlegt er að skoða það áfall sem lífeyrissjóðakerfið varð fyrir í samhengi við hrunið sem hér varð og þá efahagskreppu sem heimsbyggðin hefur verið að ganga í gegnum,“ segir Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra, á heimasíðu sinni í gærkvöldi um úttektarskýrslu Landssambands lífeyrissjóða um fjárfestingar lífeyrissjóða og starfsemi þeirra í kringum bankahrunið sem kynnt var á föstudaginn.
Ögmundur gagnrýnir harðlega umfjöllun Ríkissjónvarpsins um málið í fréttum sínum í gærkvöldi en þar var meðal annars birt mynd af honum og fjallað um aðkomu hans að Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins sem var annar tveggja lífeyrissjóða sem töpuðu mestum fjármunum á fjárfestingum sínum í kringum hrunið. Ögmundur gegndi meðal annars stjórnarformennsku í LSR á árinu 2007.
„Í myndrænni framsetningu í fréttum sjónvarpsins var greint frá formennsku minni á árinu 2007 og yfir myndina sett tap sjóðsins, rúmlega 100 milljarðar króna. Vegna þessarar framsetningar er rétt að geta þess að hver einasta króna af þessari tapstöðu kom fram eftir að formennsku minni lauk, enda voru tekjur sjóðsins á árinu 2007 af fjárfestingum 16,3 milljarðar króna eða sem svarar til 5% ávöxtunar!“ segir Ögmundur.
Hann segir ennfremur að ef ávöxtun LSR sé skoðuð undanfarinn áratug hafi meðalraunávöxtun verið nálægt því að vera jákvæð upp á 2% þrátt fyrir bankahrunið hafi átt sér stað á því tímabili. Margir erlendir lífeyrissjóðir yrðu sáttir við þá ávöxtun að hans sögn. Þá bendir hann á að hann hafi sjálfur verið andvígur því á sínum tíma að lífeyrissjóðirnir yrðu skyldaðir með lögum til að hámarka gróða sinn með fjárfestingum.
„Íslensku lífeyrissjóðirnir voru lögþvingaðir til að leita alltaf eftir hæstu ávöxtun, mestum gróða. Ríkið bauð ekki upp á fjárfestingar fyrir lífeyrissjóðina. Þeir urðu því að fjármagna sig á markaði. Þeir máttu fara með tiltekið hlutfall fjárfestinga sinna úr landi, afganginn fjárfestu þeir innanlands. Þar hafa valkostir verið takmarkaðir. Stærstu fjárfestingakostirnir voru á þessum árum bankar, fjárfestingarfélög og nokkur stórfyrirtæki,“ segir Ögmundur.
Hann gagnrýnir Ríkissjónvarpið einnig fyrir að segja aðeins hálfa söguna með því að fjalla um tap lífeyrissjóðanna en ekki um leið um hagnað þeirra á sama tíma. „Verkefni okkar núna er að hyggja að framtíð íslenska lífeyriskerfisins á miklu róttækari hátt en mér sýnist rannsóknarskýrslan reifa,“ segir Ögmundur.