Nokkrir þingmenn Framsóknarflokksins hafa lagt fram þingsályktunartillögu um að úthlutun virkjanaleyfa til stærri virkjana en 5-10 MW verði háð því að tveir þriðju hlutar viðkomandi orkufyrirtækis séu í eigu ríkis eða sveitarfélaga.
Í tillögunni er einnig lagt til að lagt verði mat á kosti og galla þess að selja lífeyrissjóðunum allt að 30% af Landsvirkjun og hvort skynsamlegt sé að leggja raforkusæstreng til Evrópu.
Einnig verði verkefnafjármögnun einstakra framkvæmda skoðuð.
Tilgangur tillögunnar er að skapa grundvöll fyrir hlutlausu mati á þeim sjónarmiðum sem snúa að þessum áhugaverðu en umdeildu álitamálum.
Flutningsmenn tillögunnar eru Sigurður Ingi Jóhannsson, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Gunnar Bragi Sveinsson, Siv Friðleifsdóttir og Ásmundur Einar Daðason.