Ákvörðunin hjá stjórnvöldum

Franek Rozwadowski,
Franek Rozwadowski, mbl.is/Heiðar Kristjánsson

Franek Rozwadowski, sem fer með mál Íslands hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, segir að það sé alltaf í höndum ríkisstjórnarinnar að ákveða til hvaða ákvarðana sé gripið. Ekki sjóðsins.

Í Fréttablaðinu í dag er fjallað um að AGS hafi lagt til við gerð fjárlaga árið 2009 að Þjóðleikhúsinu yrði lokað í sparnaðarskyni.

Í tilkynningu AGS vegna fréttarinnar kemur fram að í viðræðum sjóðsins við stjórnvöld á Íslandi hafi alltaf verið horft til mikils halla á fjárlögum. Hins vegar hafi það verið hornsteinn í þeim viðræðum að stjórnvöldum væri í sjálfsvald sett hvernig unnið yrði á hallanum. Það að AGS hafi beint spjótum sínum að menningarstofnunum sé ekki rétt.

Fulltrúar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á Íslandi gerðu það að tillögu sinni um það leyti sem fjárlagagerð stóð yfir haustið 2009 að loka ríkisreknum menningarstofnunum í sparnaðarskyni. Þjóðleikhúsið var nefnt sérstaklega á nafn og skyldi lokunin standa í þrjú ár. Tillögu AGS var alfarið hafnað.

Þetta kom fram í máli Katrínar Jakobsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, á Alþingi á föstudag þegar hún flutti munnlega skýrslu fyrir þinginu um málefni safna hér á landi. „Og þetta var nefnt í fullri alvöru,“ sagði Katrín.

Í viðtali við Fréttablaðið útskýrir ráðherra að þegar hugmyndin var orðuð við íslensk stjórnvöld hefðu fulltrúar AGS í sjálfu sér ekki gert sérstakan greinarmun á menningarstofnunum sem þeir töldu að mætti loka í þrjú ár í sparnaðarskyni.
„Þetta var meðal ýmissa hugmynda þeirra um niðurskurð og samdrátt, og nefnt sem fórn sem gæti þurft að færa,“ segir Katrín. „Almennt var það nefnt sem lausn að loka stofnunum tímabundið.“

Að sögn Katrínar voru allar menningarstofnanir sem reknar eru af íslenska ríkinu undir í hugmyndum AGS, til dæmis höfuðsöfnin Listasafn Íslands og Þjóðminjasafnið. Af hálfu íslenskra stjórnvalda hafi slíkar lokanir þó aldrei komið til greina, segir í frétt Fréttablaðsins í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert