Ný stjórnmálahreyfing undir forystu Lilju Mósesdóttur alþingismanns hefur verið sett á laggirnar og er markmið hennar að bjóða fram í öllum kjördæmum landsins fyrir næstu þingkosningar.
Fram kemur í tilkynningu að hreyfingin sé „ekki vinstri, ekki hægri og ekki miðjumoð heldur ný hugsun í stjórnmálum. Hugsun sem gengur út á að skilgreina vandamál og lausnir út frá sérstöðu íslensks samfélags og almannahagsmunum“.
Þá segir ennfremur: „Ójöfnuður á útrásartímabilinu og endurreisn þess sem var fyrir hrun hefur alið af sér ósætti í samfélaginu. Forsendur þess að samstaða náist meðal þjóðarinnar eru að nægilegur jöfnuður og möguleikar allra til að móta samfélagið séu fyrir hendi.“
Fram kemur að stjórnmálahreyfingin verði kynnt á blaðamannafundi á morgun og þá verði upplýst hvert nafn hennar verður og hvaða stefnumál hún muni leggja áherslu á.