Milljónir fyrir listaverk

Hér gefur að líta málverk eftir listamanninn Stefán Jónsson sem …
Hér gefur að líta málverk eftir listamanninn Stefán Jónsson sem var á meðal þeirra 108 verka sem voru boðin upp hjá Gallerí Fold í kvöld. mbl.is/Kristinn

Yfir 100 listaverk voru boðin upp á uppboði sem fram fór í Gallerí Fold í Reykjavík í kvöld. Tryggvi Páll Friðriksson listmunasali segir að fjölmenni hafi tekið þátt í þessu fyrsta hefðbundna uppboði ársins. Dýrasta verkið sem seldist var mynd eftir Karl Kvaran. Hún var slegin á 3,8 milljónir.

Tryggvi segir að það hafi verið á matsverði. „Já, við vorum mjög sátt. Þetta er langhæsta verð sem hefur fengist fyrir Karl Kvaran,“ segir Tryggvi.

Þá var mynd eftir Þórarin B. Þorláksson seld á tvær milljónir króna. „Það passar alveg,“ segir Tryggvi.

Þá segir hann að tvær myndir eftir Jóhannes Kjarval hafi verið slegnar á verði sem var yfir matsverði.

Tvö verk eftir Louisu Matthíasdóttur voru einnig boðin upp í kvöld en þau seldust ekki. Það voru mestu vonbrigði kvöldsins að mati Tryggva.

Alls voru 108 verk á söluskrá. Að sögn Tryggva tókst ekki að selja þau öll en hann bendir á að alla jafna takist mönnum að selja um 80% verkanna. Ekki liggur fyrir hversu mörg verk voru seld á uppboðinu í kvöld og þar af leiðandi liggja endanlegar sölutölur ekki fyrir.

Tryggvi segir að venjulega sé verkunum skipt í þrjá flokka; ódýr verk, milliflokk og verk eftir látna meistara. Að þessu sinni voru engin verk í boði sem tilheyra ódýrasta flokknum.

Að lokum bendir Tryggvi á að listaverkavísitalan hafi hækkað á síðasta ári og það sé í fyrsta sinn sem það gerist frá hruninu. Hækkunin var ekki mikil, eða um 3%. „Það er þó hækkun,“ segir Tryggvi að lokum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert