Sameining sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu verður til umræðu á fundi borgarstjórnar Reykjavíkur á morgun. Umræðan fer fram að beiðni borgarfulltrúa Besta flokksins og Samfylkingarinnar.
Tillagan er þó ekki komin frá fulltrúum meirihlutans því hún barst Reykjavíkurborg í gegnum samráðsvefinn Betri Reykjavík. Hún var lögð fram í borgarráði 17. nóvember 2011 og rædd að nýju 1. desember sl. Borgarráð samþykkti þá að vísa málinu til umræðu í borgarstjórn, auk þess sem tillagan var send stjórn Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu til kynningar.