Telja tapið vera 380 milljarða

Arnar Sigurmundsson, formaður Landssamtaka lífeyrissjóða, á fundi þar sem skýrslan …
Arnar Sigurmundsson, formaður Landssamtaka lífeyrissjóða, á fundi þar sem skýrslan var kynnt. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Landssamtök lífeyrissjóða segir í yfirlýsingu að samtökin hafi miðað við að tap lífeyrissjóðanna á hruninu sé 380 milljarðar, en nefndin sem gerði úttekt á starfsemi sjóðanna taldi það vera tæpir 480 milljónir. Ástæðan fyrir þessum mismun sé ólík viðmiðunartímabil.

Landssamtök lífeyrissjóða harma þá skerðingu á lífeyrisgreiðslum og réttindum sem sjóðsfélagar margra lífeyrissjóða hafa mátt þola. Að sama skapi beri að fagna að nú liggur fyrir umfangsmikil skýrsla úttektarnefndar á fjárfestingarstefnu, ákvarðanatöku og lagalegu umhverfi lífeyrissjóðanna í aðdraganda bankahrunsins 2008.

„Í skýrslunni er heildartap lífeyrissjóðanna frá janúar 2008 til ársloka 2010 tilgreint tæpir 480 milljarðar króna. Þessi fjárhæð er u.þ.b. 95 milljörðum kr. hærri en sjóðirnir hafa rakið til efnahagshrunsins frá október 2008. Mismunurinn helgast af ólíkum viðmiðunartímabilum. Sé tímasetning tjónsins miðuð við fall bankanna verður heildartap sjóðanna eftir sem áður mikið eða um 380 milljarðar.

Nefndin bendir réttilega á „að í mörgum tilvikum höfðu lífeyrissjóðirnir átt hlutabréfin lengur og keypt þau á lægra verði en tap sjóðanna er reiknað út frá.“ Skýrslan er efnismikil og þar er að finna viðamikinn fróðleik um lífeyrissjóðakerfið og einstaka lífeyrissjóði. Mikilvægt er að þeir sem koma að því með einum eða öðrum hætti skoði skýrsluna með það í huga að draga af henni lærdóm. Í henni má finna gagnlegar ábendingar sem meta þarf með það að markmiði að efla fagleg vinnubrögð. Margt af því sem þar er tekið fram hafa sjóðirnir nú þegar tekið til skoðunar og fært til betri vegar.

Mikilvægt er að standa vörð um lífeyrissjóðakerfið en eins og fram kemur í skýrslunni voru það ekki einungis íslensku lífeyrissjóðirnir sem urðu fyrir áfalli. Þegar fjármálakreppan reið yfir urðu allir lífeyrissjóðir OECD-ríkjanna fyrir miklu tjóni. Tap íslensku lífeyrissjóðanna er nálægt meðaltali þess sem varð hjá lífeyrissjóðum OECD-ríkja.

Það er óumdeilt að íslensku sjóðirnir urðu fyrir miklu höggi en stóðu það af sér. Það lýsir best styrk íslenska lífeyrissjóðakerfisins. Þrátt fyrir ýmislegt sem aflaga fór og tilgreint er í skýrslunni er í henni einnig tekið fram að í samanburði við lífeyrissjóðakerfi annarra OECD-ríkja komi íslenska lífeyrissjóðakerfið vel út,“ segir í yfirlýsingu samtakanna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert