Samkvæmt upplýsingum frá Landhelgisgæslunni er þyrla gæslunnar lögð af stað til þess að aðstoða breska göngumanninn sem slasaðist í morgun.
Í fréttatilkynningu frá Slysavarnafélaginu Landsbjörg er maðurinn við Vegamótavatn en hann ætlaði að ganga þvert yfir landið á skíðum í fjáröflunarskyni.
Fjórir bílar frá björgunarsveitunum Dalbjörg í Eyjafirði og Súlum á Akureyri hafa verið ræstir út til öryggis ef þyrlan kemst ekki á staðinn. Einnig voru fjórir vélsleðar sendir af stað þar sem snjóþungt er á svæðinu og færðin gæti verið erfið fyrir bíla. Bílarnir eru komnir upp úr Eyjafirðinum.
Lögreglan á Húsavík hefur haft samband við manninn og að eigin sögn er hann úlnliðsbrotinn. Talið er að hann hafi slasast við fall. Maðurinn er með tjald og er ekki illa haldinn.