Töldu lán til Glitnis ekki álitleg

Hrafn Bragason, fyrrverandi hæstaréttardómari, var formaður nefndarinnar.
Hrafn Bragason, fyrrverandi hæstaréttardómari, var formaður nefndarinnar. Morgunblaðið/Kristinn

Lífeyrissjóður verslunarmanna komst að þeirri niðurstöðu í mars 2008 að þátttaka í skuldabréfaútboði Glitnis væri ekki álitleg. Þrettán sjóðir tóku þátt í útboðinu og töpuðu 10,7 milljörðum þegar bankinn féll sex mánuðum síðar.

Í mars 2008 efndi Glitnir banki til skuldabréfaútboðs samtals að fjárhæð 15 milljarðar króna. Um var að ræða svokallað víkjandi lán, en það þýðir að þau víkja fyrir öllum skuldbindingum öðrum en hlutabréfum við gjaldþrot. Greiða átti fasta 8% ársvexti af láninu. Þann 1. apríl 2013 átti andvirði skuldabréfsins að breytast í hlutabréf í Glitni banka hf. Þrettán lífeyrissjóðir keyptu skuldabréf í þessu útboði, samtals fyrir 10.743 milljónir. Þessir peningar urðu að engu þegar bankinn féll í október 2008.

Þar sem ákvæði um skuldabréfið var svo sérstakt kom ekki til álita að fjárfesta í því af hálfu lífeyrissjóða án þess að stjórn viðkomandi sjóðs samþykkti það. Stjórn Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins og Gildi, sem eru tveir af þremur stærstu lífeyrissjóðum landsins, voru meðal þeirra sjóða sem fjárfestu í þessum bréfum. Fjallað var um málið í stjórn Gildis og samkvæmt bókun var talið „áhugavert að kaupa þessi bréf“.  Fjárfestingarráð LSR ræddi hvort kaupa ætti skuldabréfin en málið var ekki kynnt stjórn sjóðsins fyrr en eftir að kaupin höfðu átt sér stað.

Lífeyrissjóður verslunarmanna ákvað að kaupa ekki þessi skuldabréf. Sagði framkvæmdastjóri hans í samtali við úttektarnefndina að þeim hefði ekki þótt fjárfestingin álitleg. Í skýrslu nefndarinnar segir að hún hafi haft það á tilfinningunni að því hafi einnig ráðið að verulegar umbreytingar höfðu litlu fyrr orðið á eignarhaldi Glitnis, en fjárfestar tengdir Baugi voru komnir með ráðandi hlut í bankanum.

„Eðlilegt er að láta slíkt hafa áhrif á fjárfestingar enda traust eignarhald og stjórnun fyrirtækja eitt af því sem horfa verður til,“ segir í skýrslu úttektarnefndar.

Stjórnendur þeirra sjóða sem keyptu umrædd víkjandi skuldabréf á Glitni vísa til þess að gögn þau sem þeim hafi verið sýnd á kynningarfundi um þessa fjárfestingu hafi litið vel út. Telja þeir að tíminn hafi leitt í ljós að þessi gögn hafi verið mjög misvísandi
og deila þeir fyrir héraðsdómi Reykjavíkur við skilanefnd bankans um stöðu þessara skuldabréfa í skuldaröð.

„Líklega ættu sjóðirnir því frekar skaðabótakröfu á hendur bankanum takist þeim að sanna sök yfirstjórnenda hans. Hins vegar hefðu sjóðirnir þurft að gera sjálfstæða greiningu á þessari fjárfestingu og þeirri áhættu sem henni var samfara. Bendir margt til að þessu hafi verið ábótavant,“ segir í skýrslu úttektarnefndar.

Í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis kemur fram að notkun íslensku bankanna á víkjandi lánum til að efla eigið fé sitt var að miklum mun víðtækara en í flestum nágrannaríkjanna. Úttektarnefndin segir að það veki sérstaka athygli að af innlendri skuldabréfaeign LSR í árslok 2008, áður en kom að afskriftum, var 11,5 milljarða víkjandi lán í fjármálafyrirtækjum sem nam 37% af innlendri skuldabréfaeign sjóðsins á fjármálafyrirtæki.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert