Tvíbent öryggi í umferð

Afleiðingar slysa eru oft alvarlegri í dreifbýli.
Afleiðingar slysa eru oft alvarlegri í dreifbýli. mbl.is/Guðmundur

Flest umferðarslys verða á helstu vegum til og frá höfuðborgarsvæðinu. Þeir eru samt sem áður með öruggustu vegum landsins þegar litið er til slysatíðni miðað við umferð. Alvarlegustu slysin verða aftur á móti helst á fáförnum vegum utan þéttbýlis, sé miðað við umferð.

Þetta kemur fram í rannsókn Þórodds Bjarnasonar, prófessors í félagsfræði og stjórnarformanns Byggðastofnunar, og Sveins Arnarssonar félagsfræðinema, en fjallað er um hana í Morgunblaðinu í dag. Markmið rannsóknarinnar var að finna hættulegustu þjóðvegi landsins með tilliti til fjölda slysa annars vegar og tíðni hins vegar.

Í niðurstöðunni felst sú þversögn að hægt er að fækka slysum mest með því að auka umferðaröryggi þar sem það er nú þegar mest, þ.e. í grennd við höfuðborgarsvæðið. Í rannsókninni er bent á að kröfur um forgang samgöngubóta á suðvesturhorni landsins, umfram aðrar brýnar framkvæmdir í samgöngumálum sem lækkað geta slysatíðni, eru háværar. Slíkt gæti þó aukið á misrétti í umferðaröryggi eftir landshlutum þar sem slysatíðnin er hærri utan höfuðborgarsvæðisins.

Flest slys á hvern kílómetra á árunum 2007-2010 urðu á Reykjanesbraut milli Hafnarfjarðar og Keflavíkur, næstflest á Suðurlandsvegi og í þriðja sæti var Vesturlandsvegur frá Þingvallaafleggjara að Borgarnesi.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert