Viðræður um myndun nýs meirihluta í Kópavogi standa enn yfir á milli Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Y-lista Kópavogsbúa en fulltrúar flokkanna funduðu í hádeginu í dag. Ármann Kr. Ólafsson, oddviti sjálfstæðismanna, segir að viðræðurnar gangi vel.
„Það eru ýmis mál sem við munum skoða ofan í kjölinn. Svo erum við að fara yfir málefnasamninginn í tengslum við það, verkaskiptingu og slíkt,“ segir Ármann í samtali við mbl.is.
Hann segist ekki vilja setja neina tímapressu á fulltrúana þegar hann er spurður hvenær hann telji að viðræðunum ljúki. „Ég á von á að þetta gangi fljótt og vel fyrir sig. Ég vil ekkert segja umfram það,“ segir hann.
„Það eru hin og þessi mál sem við viljum láta skoða aðeins betur fyrir okkur og fara ofan í kjölinn á. Og á meðan menn eru að því þurfa ákveðin verk að bíða og svo framvegis. Það er verið að vinna þetta jafnt og þétt.“
Aðspurður segir hann fulltrúana hafa hist á fundi í hádeginu í dag. Til standi að þeir hittist aftur í kvöld.