Örn Pálsson, framkvæmdastjóri Landssambands smábátasjómanna, segir að skýrsla úttektarnefndarinnar sýni að tímabært sé að auka lýðræði innan lífeyrissjóðanna. Hún sýni að löngu tímabært sé að gera breytingar á samþykktum sjóðanna.
Framkvæmdastjórn Landssambands smábátasjómanna lagði fram tillögur á síðasta ári sem gengu út á að auka vald sjóðfélaga í stjórn lífeyrissjóðsins Gildis og gefa sjóðfélögum kost á að bjóða sig fram á ársfundi til setu í stjórn.
Örn segir að á fundi með framkvæmdastjóra Gildis fyrir ársfund hafi komið fram að tvö aðildarfélög, Samtök atvinnulífsins og Sjómannasamband Íslands, hefðu lýst andstöðu við að tillögur sem fjalla m.a. um breytingar á stjórn sjóðsins yrðu teknar fyrir á ársfundi. „Svo fór að æðsta valdi í stjórn sjóðsins, ársfundi, var meinað að fjalla um tillögur sem lutu að breytingum á stjórn sjóðsins.
Fyrst í stað komu þessi viðbrögð framkvæmdastjóra LS á óvart þar sem hann taldi þetta kjörið tækifæri fyrir sjóðinn til að bæta ímynd sína með því að opna hann fyrir hinum almenna sjóðfélaga og auka þannig lýðræði innan hans. Eftir á að hyggja kom afstaðan hins vegar ekki á óvart þar sem sótt var að gríðarlegu valdi sem Samtök atvinnulífsins og Alþýðusamband Íslands hafa ákveðið að skipta á milli sín og verður að öllum líkindum varið til síðasta manns. Skilaboðin voru skýr: Nánast óhugsandi væri að ná fram breytingum á ársfundi, samþykktir sjóðsins gáfu stjórn færi á að stöðva tillögur sem beint var til ársfundar og koma í veg fyrir að hann væri æðsta vald eins og lýðræðið kennir,“ segir Örn á heimasíðu Landssambands smábátasjómanna.