Forsætisráðherrar N-Evrópu funda

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra.
Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra. mbl.is/Ómar

Nú í vikunni hittast forsætisráðherrar níu ríkja norðanverðrar Evrópu á leiðtogafundi í Stokkhólmi. Þar ætla þeir að miðla af reynslu viðkomandi landa og ræða hvernig vinna megi að varanlegum hagvexti samhliða bráðaaðgerðum gegn fjármálakreppunni sem einkennt hafa Evrópu undanfarin ár. 

Frá þessu segir í fréttatilkynningu frá forsætisráðuneytinu.

Um er að ræða níu forsætisráðherra Norðurlanda, Eystrasaltslanda og Bretlands og stendur fundurinn yfir hinn 8. og 9. febrúar næstkomandi.

Viðfangsefni fundarins er tvíþætt; annars vegar þáttur kvenna í atvinnurekstri og leiðandi störfum í atvinnulífinu, hins vegar verða ræddar leiðir til þess að gera eldri borgurum kleift að vera lengur á vinnumarkaði en nú tíðkast. Sendinefnd allra landanna er skipuð sérfræðingum, atvinnurekendum og fræðimönnum sem glímt hafa við framangreind viðfangsefni.  

Ásamt forsætisráðherrunum ætla þeir að ræða ögrandi sameiginleg markmið og skiptast á skoðunum og reynslu, meðal annars af breytingum á aldursdreifingu þjóðanna og hlutfallslegri fjölgun eldri borgara. 

Unnt er að fylgjast með ráðstefnunni í beinni útsendingu á vef sænsku ríkisstjórnarinnar, en einnig á twitter. 

Auk  Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra Íslands, taka forsætisráðherrar Svíþjóðar, Bretlands, Danmerkur, Eistlands, Noregs, Lettlands, Finnlands og Litháens þátt í ráðstefnunni ásamt sendinefndum landanna. 

Íslenska sendinefndin er skipuð Rannveigu Rist, forstjóra Rio Tinto Alcan á Íslandi, Aðalheiði Héðinsdóttur, forstjóra Kaffitárs, Berglindi Hallgrímsdóttur, framkvæmdastjóra hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Stefáni Ólafssyni, prófessor við HÍ, og Sigmundi Guðbjarnasyni, rannsóknastjóra Saga Medica.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert