Hafna háspennulínu í Hvalfirði

Frá Grundartanga við Hvalfjörð.
Frá Grundartanga við Hvalfjörð. Mbl.is/Þorvaldur Örn Kristmundsson

Hreppsnefnd Kjósarhrepps segist vera alfarið á móti aukinni mengandi iðnaðaruppbyggingu í Hvalfirði og telur að iðnaðarstarfsemin á Grundartanga hafi þegar valdið íbúum og fasteignaeigendum í Kjósarhreppi ómældu tjóni. Hreppsnefndin hefur því hafnað hugmyndum Landsnets hf. um að leggja nýja raforkulínu gegnum hreppinn.

Landsnet sendi hreppsnefnd Kjósarhrepps erindi þar sem óskað var eftir breytingu á aðalskipulagi til að hægt verði að leggja 400 kv raforkulínu gegnum hreppinn, frá Geithálsi að Grundartanga. Lega hennar á að vera samsíða núverandi 220 kv línu. Fyrirhuguð lína er háð umhverfismati, fyrirferðarmeiri og hefur meira helgunarsvæði en núverandi lína. Henni er ætlað að færa stóraukna flutningsgetu til að mæta aukinni eftirspurn eftir raforku til iðnaðaruppbyggingar á Grundartanga.

Hreppsnefnd Kjósarhrepps fjallaði um erindið á fundi 2. febrúar og samþykkti að hafna óskinni. Í samþykktinni segir að nefndin telji það algjört forgangsverkefni að draga úr umhverfisáhrifum þeirra iðnfyrirtækja sem þegar eru starfandi á Grundartanga.

„Er þessi afgreiðsla í samræmi við inntak Aðalskipulags Kjósarhrepps en fram kemur í formála þess að ekki er gert ráð fyrir þéttbýli, stóriðju né uppbyggingu háspennumastra. Þá er ræktun með tilstuðlan líftækni óheimil, jafnframt er stórfellt fiskeldi og skipulagslaus uppdæling malarefna úr Hvalfirði hvoru tveggja forboðið,“ segir í yfirlýsingu hreppsnefndar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert