Jóhanna á fundi um hagvöxt

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra.
Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra.

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra mun í vikunni sitja fund Í Stokkhólmi í Svíþjóð með forsætisráðherrum níu ríkja norðanverðrar Evrópu. Þeir ætla að miðla af reynslu viðkomandi landa og ræða hvernig vinna megi að varanlegum hagvexti samhliða bráðaaðgerðum gegn fjármálakreppunni sem einkennt hafa Evrópu undanfarin ár.

Níu forsætisráðherrar Norðurlanda, Eystrasaltslanda og Bretlands koma saman til leiðtogafundar í Stokkhólmi þann 8. og 9. febrúar næstkomandi. Viðfangsefni fundarins er tvíþætt; annars vegar þáttur kvenna í atvinnurekstri og leiðandi störfum í atvinnulífinu, hins vegar verða ræddar leiðir til þess að gera eldri borgurum kleift að vera lengur á vinnumarkaði en nú tíðkast.  Sendinefnd allra landanna er skipuð sérfræðingum, atvinnurekendum og fræðimönnum sem glímt hafa við framangreind viðfangsefni.  Ásamt forsætisráðherrunum ætla þeir að ræða ögrandi sameiginleg markmið og skiptast á skoðunum og reynslu, meðal annars af breytingum á aldursdreifingu þjóðanna og hlutfallslegri fjölgun eldri borgara.

Íslenska sendinefndin er skipuð Rannveigu Rist, forstjóra Rio Tinto Alcan á Íslandi, Aðalheiði Héðinsdóttur forstjóra Kaffitárs, Berglindi Hallgrímsdóttur, framkvæmdastjóra hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Stefáni Ólafssyni, prófessors við HÍ og Sigmundi Guðbjarnarsyni rannsóknastjóra Saga Medica.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert