„Ég hef velt mikið fyrir mér lífeyriskerfinu í kjölfar hrunsins og komist að þeirri niðurstöðu að það sé eitruð blanda að vera með þessa vinnumarkaðssjóði sem fólk er skyldugt til að greiða í,“ segir Lilja Mósesdóttir þingmaður.
„Þeir eru jafnframt með þessa samtryggingu sem felst í því að þeir lofa að tryggja sjóðsfélögum a.m.k. 56% af meðallaunum yfir starfsævina. Til þess að geta staðið við þetta hefur m.a. þurft styrk ríkisins við þessa sjóði. Styrkurinn hefur birst í því að skattur er ekki tekinn af iðgjaldagreiðslum áður en þær fara inn í sjóðinn, heldur á eftir.“
Búið að hola almannakerfið að innan
Lilja segir að mikil andstaða hafi verið við hugmyndir um að sjóðirnir lækkuðu lífeyri í samræmi við verri ávöxtun eftir hrun vegna þess að þeir séu samtryggingarsjóðir. „Það er búið að hola almannakerfið, sem á að vera samtryggingarkerfi, alveg að innan,“ segir Lilja.
„Ef þessir vinnumarkaðssjóðir lækka lífeyrisgreiðslur, þá er fólk neytt til að leita á náðir hjálparsamtaka.“
Hvernig sérðu fyrirkomulag lífeyrismála fyrir þér?
„Mér dugar ekki eitthvert aukið sjóðsfélagalýðræði þegar peningarnir sem eru inni í þessum sjóðum eru ekkert bara þeirra eign, heldur líka eign ríkisins. Það þarf að aðgreina samtryggingakerfið sem á að vera algerlega inni í almannatryggingakerfinu og almannatryggingar eiga að tryggja lágmarkslífeyri. Til hliðar við það eiga að vera sjóðir sem eru fjárfestingarsjóðir og ávaxta viðbótarlífeyri landsmanna.“
Uppstokkunar er þörf
Er þetta framkvæmanlegt?
„Það er ljóst að það þarf uppstokkun á lífeyrissjóðakerfinu, það er allt of stórt fyrir íslenskt efnahagslíf. Ef við ætlum að taka á skuldavanda heimilanna og væntanlegu gengisfalli við afnám gjaldeyrishafta, þá verðum við að taka á lífeyrisjóðakerfinu og stokka það upp.
Almannatryggingakerfið þarf að geta borgað lífeyri sem dugar til framfærslu. Það kostar auðvitað skattgreiðendur, en í stað þess að hækka skatta, þá tökum við skattinn af þessum lífeyrissjóðum sem þeir hafa verið að sýsla með inni í fjárfestingarsjóðunum og tapað.“
Þrýstingur á gengishrun
Lilja segir að þrýstingurinn á gengishrun af hálfu lífeyrissjóðanna sé mikill. „Þeir eru svo stórir og miklir fjármunir munu streyma út í betri ávöxtun.“ Hún segir þörf á breytingum. „Þegar stórir hópar fara á lífeyri, þá þurfa lífeyrissjóðirnir að selja eignir. Þá hrapar eignaverð í landinu og sjóðirnir eiga ennþá minna. Það hefur aldrei verið talað um þetta.“
Hún segist áður hafa stutt hugmyndir um einn sameinaðan lífeyrissjóð, en það geri hún ekki lengur. „Að einhver ein stjórn sýsli með meira fjármagn en öll fyrirtækin í landinu búa til kemur ekki til greina.“
Lilja segir að Íslendingar hafi séð ofsjónum yfir kostum lífeyrissjóðanna. „Ókostum kerfisins var sópað undir teppið, en það er aftur á móti alltaf verið að tala um ókosti almannatryggingakerfisins.“