Sigurður Áss Grétarsson, fyrrverandi formaður Lífeyrissjóðs verkfræðinga, segir að tölur í skýrslu úttektarnefndar um starfsemi lífeyrissjóðanna séu vafasamar. Tap Lífeyrissjóðs verkfræðinga sé ekki eins mikið og segi í skýrslunni.
Í skýrslu úttektarnefndarinnar segir að Lífeyrissjóður verkfræðinga hafi tapað yfir helmingi eigna sinna í hruninu.
„Þær tölulegar staðreyndir sem koma fram í skýrslu úttektanefndar á lífeyrissjóðunum um raunávöxtun og tap lífeyrissjóðs verkfræðinga eru ekki í samræmi við ársskýrslur sjóðsins,“ segir Sigurður. „Í skýrslunni kemur fram að hrein eign lífeyrissjóðs verkfræðinga til greiðslu lífeyris í árslok 2007 er 30,7 milljarðar króna en í árslok 2009 er sú upphæð 32,4 milljarðar króna þ.e. 6% hærri. Iðgjöld á þessu tímabili voru um 5,6 milljarðar króna en lífeyrir og rekstrarkostnaður 1,2 milljarðar króna. Í þessari sömu skýrslu er fullyrt að sjóðurinn hafi tapað 16,1 milljarði króna á bankahruninu. Ljóst er að slík framsetning er hæpin.
Samkvæmt ársreikningum lífeyrissjóðsins á þessu tímabili er tap sjóðsins vegna afskrifaðra innlendra og erlendra skuldabréfa, gjaldmiðlavarna innan við 10 milljarðar króna. Í skýrslunni kemur fram að raunávöxtun einstakra eignaflokka eins og t.d. ávöxtun erlendra hlutabréfa 2009 er gefinn upp 160% sem er í engum takti við ávöxtun annarra lífeyrissjóða eða ársreikninga lífeyrissjóðs verkfræðinga. Ljóst má því vera við lestur skýrslunnar að tölurnar yfir lífeyrissjóð verkfræðinga eru vafasamar.
Fyrrum stjórn Lífeyrissjóðs verkfræðinga harmar þá útkomu sem varð á sjóðnum við hrun bankana en sú útkoma sem birtist í skýrslu úttektanefndarinnar er ekki í samræmi við ársreikninga sjóðsins.“
Í frétt á mbl.is í gær kemur fram að stjórn lífeyrissjóðs verkfræðinga hafi selt erlend hlutabréf rétt fyrir hrun krónunnar. Því er haldið fram að ákvörðunin sé tekin á eins óheppilegum tíma og hægt var með tilliti til gengi íslensku krónunnar.
Sigurður segir að þetta sé rangt. Gengi krónunnar hafi verið búið að falla um 33% frá byrjun janúar 2008 til 18. mars 2008 þegar salan fór fram. „Síðan átti gengið eftir að falla 35% um haustið. Erlendu hlutabréfin sjóðsins féllu hins vegar töluvert meira á sama tímabili eða þegar mest var um 50%. Síðan þá hefur gengið staðið að mestu í stað en verð erlend hlutabréf er orðið álíka og þau voru fyrir sölu. Raunávöxtun erlendra hlutabréfa frá 18. mars 2008 til dagsins í dag er því neikvæð.
Hvað varðar fullyrðingar skýrsluhöfunda um að stjórn sjóðsins hafi verið afskiptasöm um fjárfestingar og nokkuð áhættusækin þá er það órökstutt. Stjórn lagði sig fram að draga úr áhættu og fylgjast vel með. Farið var iðulega yfir einstaka eignaflokka en líka rætt um einstakar fjárfestingar.
Í lífeyrissjóði verkfræðinga sá framkvæmdarstjórn sjóðsins um einstakar fjárfestingar innan hefðbundis starfsramma fjárfestingarstefnu stjórnar, líkt og gert var í öðrum sjóðum og í samræmi við lög og reglur. Stærri fjárfestingar voru bornar undir stjórn sjóðsins. Stjórn sjóðsins hafði jafnaði ekki frekari afskipti af einstökum fjárfestingum fram að hruni. Þann 29. september 2008 greip stjórn hins vegar inn í einstakar fjárfestingar með því að draga úr eign séreignadeildar í skuldabréfasjóðum og þann 2. október var samþykkt að selja öll hlutabréf í Landsbankanum,“ segir Sigurður.