Það veldur miklum vonbrigðum hversu miklir fjármunir glötuðust hjá lífeyrissjóðunum vegna þess kerfishruns sem átti sér stað árið 2008, segir í ályktun stjórnar Landssambands íslenzkra verzlunarmanna. „Þrátt fyrir þetta mikla tap hafa sjóðirnir staðið af sér mesta efnahagslega áfall sem dunið hefur yfir frá því að lífeyrissjóðakerfið var stofnsett og bendir flest til þess að almennu sjóðirnir muni á komandi árum geta rétt stöðu sína við og staðið undir þeim skuldbindingum sem á þeim hvíla,“ segir í ályktuninni.
Segir stjórnin að eitt það alvarlegasta sem skýrsla úttektarnefndarinnar varpi skýrara ljósi á sé sá „hrópandi mismunur sem landsmenn búa við, eftir því hvort iðgjöld þeirra renna í hina opinberu lífeyrissjóði eða hina almennu“.
Þá segir í ályktuninni: „Það er óþolandi að þegar sjóðfélagar almennu sjóðanna hafa tekið á sig skerðingu réttinda, skuli þeir á sama tíma standa frammi fyrir aukinni skattbyrði til þess að hægt sé að viðhalda óbreyttu réttindakerfi opinberu sjóðanna.“
Í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 5. maí 2011 er því heitið að vinna að jöfnum réttindum sjóðfélaga í landinu. „Þá vinnu verður að hefja nú þegar, ekki síst í ljósi þeirrar mismununar sem skýrsla úttektarnefndarinnar undirstrikar með óyggjandi hætti.“