„Þessi ungi maður er maður að meiri og fleiri mættu fara að hans fordæmi. Það hafa stærri glæpir verið framdir án þess að fólk sjái að sér," segir Kristján Freyr Halldórsson, verslunarstjóri í Máli og menningu. Ungur maður sem var með drykkjulæti í versluninni kom í gær til að biðjast afsökunar.
Kristján segir það ekki óalgengt að fólk í misjöfnu ástandi slæðist inn í bókabúðina, enda er hún staðsett á miðjum Laugaveginum og opin öll kvöld. „Þessi maður var bara með dólgslæti og leiðindi og fólki sem er hérna, í þessu fallega umhverfi sem bókabúð getur verið, bregður náttúrulega þegar inn kemur maður sem lætur hátt í sér heyra."
Starfsfólk bað manninn ítrekað um að fara ef hann ætlaði ekki að kaupa neitt. Þá tók hann upp á því að reyna að stela bókum og reif plastið utan af einni bókinni. „En okkar fólk brást hárrétt við og spurði bara hvort hann vildi poka undir bókina og hvort hann ætlaði að greiða með korti. Hann sá þá að þetta gekk ekkert og fór út," segir Kristján.
Ekki kom til þess að lögregla væri kölluð til og hélt starfsfólkið að málinu væri þar með lokið. Í gær kom sami maður hinsvegar aftur í verslunina, edrú og fullur iðrunar. „Hann sagði starfsfólkinu frá því sem hann hafði gert og að hann vildi biðjast afsökunar á þessu framferði sínu. Þau tóku mjög vel á móti honum, bentu honum á að tala við verslunarstjóra og ég þakkaði honum fyrir að koma." Að sögn Kristjáns bauðst ungi maðurinn líka til að greiða tjón sem hann hefði valdið, en það hafi aðeins verið smámunir og því afþakkað.
Kristján segir hinsvegar að starfsfólkið hafi kunnað afar vel að meta viðleitni mannsins. Fleiri mættu taka sér hann til fyrirmyndar, enda hafi stærri glæpir verið framdir án þess að fólk sjái að sér og axli ábyrgð.
„Þetta er kannski orðin leiðinleg tugga, en þetta er samt ágætis áminning um það ég held líka að fólki líði bara betur. Hann sagði það sjálfur hreint út, að honum hefði liðið svo illa með þetta og fannst að honum myndi kannski líða betur ef hann bæðist afsökunar. Þá hugsar maður með sér að það er örugglega fullt af fólki sem líður mjög illa yfir ýmsum gjörðum og er þá ekki bara langbest að hreinsa borðið?"