„Við erum ekki móttökustöð fyrir pappír. Það er hlutverk Sorpu að sjá um það,“ segir Gunnar Andersen, forstjóri Fjármálaeftirlitsins, þegar hann er spurður út í gagnrýni nefndar sem rannsakaði lífeyrissjóðina, en nefndin segir í skýrslu sinni að eftirlit FME hafi aðallega falist í að „taka á móti skýrslum frá öðrum eftirlitsaðilum og lífeyrissjóðunum sjálfum.“
Gunnar segir að fyrir hrun hafi verið fáliðað í deild FME sem sá um eftirlit með lífeyrissjóðunum. Þar hafi 2-3 menn starfað. „Nú starfa þar sex viðskiptafræðingar og þrír lögfræðingar. Það bætist einn starfsmaður við á þessu ári, sem þýðir að þar munu starfa 10 starfsmenn.“
Gunnar segir að FME hafi eftir hrun lagt mikla áherslu á greiningarhæfni eftirlitsins og að formskilyrðum laga sé fullnægt. „Við gerum athugasemdir við einstakar fjárfestingar og eins við ársskýrslurnar sjálfar. Ef þar er eitthvað sem vekur grunsemdir þá förum við ofan í það. Við höfum líka aukið vettvangsrannsóknir. Það var gagnrýnt í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis að FME hefði ekki gert nægilega mikið af því að fara á staðinn og skoða. Við höfum birt á heimasíðu okkar þær niðurstöður sem út úr þessu hafa komið. Þetta er gert í samræmi við gagnsæisstefnu okkar. Við birtum niðurstöður allra rannsókna nema í þeim tilfellum sem það gæti stórskaðað reksturinn.“
Úttektarnefndin talar um að erfitt sé „að sjá að eftirlit hafi verið með einstökum fjárfestingum á annan hátt en þann hvort fylgt var ystu mörkum fjárfestingarstefnunna.“
Gunnar segir að FME skoði í dag einstakar fjárfestingar lífeyrissjóðanna. „Við skoðum ýmsa áhættuþætti og einnig samþjöppunaráhættu. Við gáfum út í desember leiðbeinandi tilmæli til lífeyrissjóðanna um áhættustýringu.“
Einnig er í skýrslu nefndarinnar fjallað um að FME hafi ekki gert athugasemdir við hvernig farið var með kostnað við fjárfestingar lífeyrissjóðanna. Gunnar segir að FME spyrji út þetta í dag og geri athugasemdir ef talin sé ástæða til að gera það.
Gunnar segir að FME hafi gert margar athugasemdir við starfsemi lífeyrissjóðanna síðustu ár, enda sé eftirlitið virkt.
„Við erum að fara í gegnum skýrslu úttektarnefndarinnar um hvort hún gefi tilefni til nýrra grunsemda um að lífeyrissjóðirnir ekki fylgt lögum. Ef grunsemdir vakna verða erindi send til rannsóknarhópsins sem fram að þessu hefur mest fengist við rannsóknir á falli bankanna og sparisjóðanna.“
Meginniðurstaða skýrsla úttektarnefndarinnar er að skort hafi upp á gæði fjárfestinga lífeyrissjóðanna og að stjórnendur þeirra hafi þurft að leggja í meira mæli sjálfstætt mat á einstakar fjárfestingar.
„Við erum hjartanlega sammála þessu. Þessi gagnrýni á ekki við um alla sjóðina, en það er enginn spurning að þetta á við í mörgum tilfellum,“ segir Gunnar.
FME setti á stofn ráðgjafanefnd vorið 2010 sem metur hæfi og hæfni stjórnarmanna. Gunnar segir að nú sé ekki aðeins krafist þekkingar á lögunum, heldur einnig þekkingar á reikningsskilum, lágmarks þekkingar á bókhaldi og einnig þekkingar á rekstri og viðskiptum. Nefndin hefur nú metið 86 stjórnarmenn fjármálafyrirtækja vátryggingafélaga, og lífeyrissjóða, þar af tíu úr stjórnum eignarhaldsfélaga. Niðurstaðan var sú að þekking, skilningur og viðhorf stjórnarmannanna varðandi helstu efni sem tengjast verksviði þeirra var fullnægjandi í 59 tilvikum en ófullnægjandi í 27 tilvikum.
Gunnar segist ekki vilja skipta sér að umræðu um hvernig lífeyrissjóðirnir velji menn í stjórn. „Aðalatriðið er að þeir sem setjist í stjórnir lífeyrissjóðanna uppfylli lágmarkskröfur sem FME gerir. Við gefum engan afslátt af þeim.“