Oddvitar Framsóknar, Sjálfstæðisflokks og Y-lista Kópavogsbúa halda áfram meirihlutaviðræðum sínum í kvöld. Ómar Stefánsson, oddviti Framsóknarmanna, sagði rétt fyrir klukkan níu að fundurinn hefði verið að hefjast og hann vissi ekki hvenær honum lyki. Þá sagðist Ómar ekki ætla að gefa kost á viðtölum að fundinum loknum.
Eins og fram kom á mbl.is fyrr í dag eru komin drög að málefnasamningi og samstarfsyfirlýsingu milli flokkanna og verður efni samninganna kynnt flokksmönnum á næstu dögum. Ómar sagði í samtali við fréttavefinn fyrir hádegi, að hann myndi kynna málið fulltrúaráði flokksins á morgun.
Kópavogur hefur verið án meirihluta í bæjarstjórn í nokkurn tíma, en hinn 13. janúar var bæjarstjóranum, Guðrúnu Pálsdóttur, tilkynnt að hún nyti ekki trausts þáverandi meirihluta Samfylkingar, VG, X- og Y-lista. Í kjölfarið, 17. janúar, lýsti Hjálmar Hjálmarsson, X-lista, því yfir að hann væri hættur í meirihlutasamstarfinu. Þetta næststærsta sveitarfélag landsins hefur því verið án meirihluta í bæjarstjórn í þrjár vikur