ESB mælir nethraða á Íslandi

Sjálfboðaliðar fá sent s.k. Whitebox mælitæki sem tengt er við …
Sjálfboðaliðar fá sent s.k. Whitebox mælitæki sem tengt er við gagnabeini heimilisins.

Sjálfboðaliða er nú leitað til að taka þátt í mælingu á nethraða Íslandi. Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins gerir um þessar mundir slíkar mælingar í 30 Evrópulöndum, þ.e. aðildarríkjunum 27 auk Króatíu, Noregs og Íslands.

Sjálfboðaliðar sem eru með breiðbandstengingu á heimili sínu geta tekið þátt með því að skrá sig á sérstaka vefsíðu og fá þá sent mælitæki sem tengt verður við gagnabeininn (e. router) á heimilinu. Mælingin stendur yfir í tvö ár og fá þátttakendur mánaðarlegar skýrslur um hraða og framgang mælingarinnar.
 
Markmið mælingarinnar er að fá glögga mynd af breiðbandshraða í Evrópu og verða niðurstöðurnar hafðar til hliðsjónar við fyrirhugaða fjárfestingu í háhraðaneti Evrópu, svo hægt sé að tryggja að umbætur og fjárfestingar skili sér þar sem þörfin er mest, í samræmi við Digital Agenda áætlun ESB.

Óskað er eftir 500 sjálfboðaliðum í upphafi hér á landi en síðan verða 100 þeirra valdir úr af handahófi. Skipulagðar mælingar af þessu tagi hafa ekki verið gerðar áður hér á landi, en fyrirfram er búist við að Ísland komi tiltölulega vel út úr könnuninni, enda er netnotkun hérlendis meiri og útbreiddari en víðast hvar í Evrópu.

Fyrirtækið SamKnows sér um framkvæmdina og hægt er að skrá sig til þáttöku á heimasíðu þess: http://www.samknows.eu/is/ipad

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert