Hjartaþegi hvetur þingheim

Kjartan Birgisson.
Kjartan Birgisson.

„Það sem vakir fyrir mér er að fá íslensku þjóðina til að vera gjafmildari á líffæri og að stytta bið einstaklinga eftir nýjum líffærum vegna veikinda sem ekki er hægt að lækna á annan máta,“ segir Kjartan Birgisson hjartaþegi, sem í morgun afhenti þingheimi áskorun um að taka frumvarp um líffæragjafir á dagskrá þingsins sem allra fyrst.

Siv Friðleifsdóttir alþingismaður lagði fram þingsályktunartillögu þessa efnis, en með frumvarpinu er Alþingi ætlað að fela velferðarráðherra að láta semja frumvarp sem geri ráð fyrir „ætluðu samþykki“ við  líffæragjafir í stað „ætlaðrar neitunar“, þannig að látinn einstaklingur verði sjálfkrafa líffæragjafi nema hinn látni hafi látið í ljós vilja til hins gagnstæða.

„Við viljum opna augu þjóðarinnar fyrir þessu, reyndar held ég að Íslendingar séu mjög jákvæðir gagnvart líffæragjöfum, en það er nokkrum vandkvæðum bundið að skrá sig,“ segir Kjartan.

Sjálfur hefur hann þurft á líffæragjöf að halda, en hann fór í hjartaskiptaaðgerð í Gautaborg í Svíþjóð síðastliðið haust. „Ég var með hjartabilun á lokastigi, það var búið að reyna að laga það. En síðan var svo komið að það var ekki lengur hægt að komast hjá því að skipta um, hjartað var komið á endastöð.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert