„Þessi dómur kemur mér ekki á óvart,“ segir Sigurjón Þórðarson, formaður Frjálslynda flokksins, um niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur þess efnis að Reykjavíkurborg beri að greiða Frjálslynda flokknum tæpar sjö milljónir króna sem greiddar voru til Borgarmálafélags F-listans sem Ólafur F. Magnússon, þáverandi borgarstjóri, hafði umráð yfir.
Sigurjón gagnrýnir borgaryfirvöld harðlega í málinu og segir að innanríkisráðuneytið hafi hvatt þau til að halda málinu fyrir utan dómstóla. Þegar Jón Gnarr borgarstjóri hafi hins vegar boðað til fundar hafi hann sjálfur ekki mætt. Hann segir að Jón geti sjálfur haldið áfram í sínum skemmtilegheitum, eins og að taka þátt í skrúðgöngum, en hann verði að hafa einhvern með sér til að setja sig inn í alvarleg mál. Þá segir Sigurjón að málið sé ekki síður á ábyrgð Samfylkingarinnar.
Sigurjón segist enga trú hafa á því að málinu verði áfrýjað, það sé svo borðleggjandi. Það væri þó eftir öðru í málinu.
Spurður um milljónirnar sjö sem flokkurinn fær þá greiddar segir Sigurjón að þær fari í að greiða reikninga, en muni eflaust einnig nýtast í komandi kosningabaráttu. Hann segir að Frjálslyndi flokkurinn hafi samþykkt að hefja samstarf með Hreyfingunni, Borgarahreyfingunni og Lýðveldisflokknum. Nánar verði þó tilkynnt um það samstarf síðar.