„Ísland er ekki lengur að kljást við efnahagskreppu.“ Þetta segir Ólína Þorvarðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, í nýjum pistli á vefsvæði sínu. Ólína telur batann í íslensku efnahagslífi hafinn og að það sé bjartara framundan, þremur árum eftir efnahagshrunið.
„Við getum ekki búist við því, þremur árum eftir hrun, að allt sé fallið í sömu skorður og áður. Hrunið hafði skaða í för með sér, tap sem ekki endurheimtist svo glatt, og aldrei að fullu. Þetta tap bera bæði einstaklingar og fyrirtæki, samfélagið allt,“ segir Ólína en bætir við að hagvöxtur sé meiri en í OECD löndum, ráðstöfunartekjur séu að hækka, jöfnuður aukast og væntingavísitalan hækka.
Þá segir Ólína að vanskilahlutfall skulda sé svipað og árið 2004, sem hafi þótt gott ár, og að heildarskuldir hafi lækkað sem hlutfall af landsframleiðslu úr 130% í 110%. „Þetta gefur okkur vonir um að hægt verði að koma frekar til móts við þá samfélagshópa sem verst fóru út úr hruninu – en það tekur lengri tíma en þrjú ár. En þó að skaðinn hafi ekki verið – og verði sjálfsagt aldrei – bættur til fulls er ólíkt bjartara um að litast nú en áður. Kreppan er nefnilega búin.“