Um síðustu áramót höfðu lán heimilanna verið færð niður um rúma 196 milljarða króna frá stofnun nýju viðskiptabankanna samkvæmt tölum sem Samtök fjármálafyrirtækja (SFF) hafa tekið saman um skuldaaðlögun heimila.
Upplýsingarnar taka til aðildarfélaga SFF, Íbúðalánasjóðs og lífeyrissjóða.
Niðurfærslan nam samtals tæpum 144 milljörðum króna í lok júlímánaðar og 172,6 milljörðum króna í lok september. Í októbermánuði nam niðurfærsla lána um 9,4 milljörðum króna, 11,5 milljörðum króna í nóvember og 2,9 milljörðum í desember, samkvæmt upplýsingum sem Samtök fjármálafyrirtækja (SFF) hafa aflað meðal aðildarfélaga sinna og hjá Íbúðalánasjóði. Tölur frá lífeyrissjóðum miðast við lok september.
Niðurfærsla fasteignalána síðustu þrjá mánuði ársins nam um 12 milljörðum króna vegna 110% leiðarinnar, um 11,6 milljörðum króna vegna endurútreiknings lána og tæplega 200 milljónir króna eru til komnar vegna sértækrar skuldaaðlögunar. Til viðbótar þeirri niðurfærslu sem rakin er hér að ofan, hafa fjármálafyrirtæki boðið upp á önnur úrræði sem lækkað hafa eftirstöðvar skulda viðskiptavina þeirra.
Um 88.400 mál afgreidd í lok árs
Um áramót var búið að afgreiða tæplega 15.589 umsóknir af þeim 16.475 sem bárust vegna 110% leiðarinnar. Innan við 900 umsóknir voru enn í vinnslu og má því ljóst vera að senn lýkur útreikningum samkvæmt þessu úrræði, segir í tilkynningu frá SFF.
Niðurfærsla samkvæmt 110% leiðinni nam 12 milljörðum króna á síðasta ársfjórðungi 2011 og nemur því samtals rúmum 43,6 milljörðum króna frá ársbyrjun 2009. Heildartalan vegna þessa úrræðis á enn eftir að hækka þó áhrifin af aðgerðum fjármálafyrirtækja í 110% leið séu að stærstum hluta komin fram.
Af 1.329 umsóknum um sértæka skuldaaðlögun var búið að afgreiða 903 mál um áramót. Samþykktar höfðu verið 824 umsóknir en 79 hafnað. 406 mál voru enn í vinnslu. Heildarniðurfærsla vegna þessa úrræðis nam í lok árs rúmum 6,2 milljörðum króna.
Fjármálafyrirtækin höfðu um áramót lokið endurútreikningi rúmlega 70 þúsund gengistryggðra lána. Þar af eru ríflega 13 þúsund fasteignalán og um 57 þúsund lán vegna bifreiðaviðskipta. Heildarniðurfærsla fasteignalána vegna endurútreiknings nam um áramót 108 milljörðum króna. Lán vegna bifreiðaviðskipta hafa verið færð niður um 38,5 milljarða króna við endurútreikning. Enn eru um 340 lán sem eftir er að ljúka endurútreikningi á. Þar af eru 280 vegna fasteigna.
3 þúsund lán enn í frosti
Í ársbyrjun 2011 voru um 4.700 heimili með samtals 7.600 lán í frystingu hjá fjármálafyrirtækjum. Í árslok var fjöldi lánanna kominn niður í rúmlega 3.000 og fjöldi heimila þar á bak við voru um tvö þúsund. Eftirstöðvar þessara lána námu um áramót um 33 milljörðum króna.