Eftir að Samtök fjármálafyrirtækja settu fram upplýsingar í morgun um niðurfærslur til handa heimilum landsins hafa komið fram viðbrögð á netheimum og óánægja með þá skilgreiningu um bílalán að þau hafi verið niðurfærð.
Í fréttatilkynningunni frá því í morgun er talað um að niðurfærsla vegna endurútreiknings bílalána nemi 38,5 milljörðum króna. Samkvæmt upplýsingum frá SFF er hér um að ræða að mestu þau erlendu bílalán sem fjármögnunarfyrirtækjum var gert, með dómi, að endurreikna vegna ólögmætra ákvæða í þeim.
Fram hefur komið talsverð gagnrýni á þessa framsetningu SFF og telja sumir að tæplega megi tala um niðurfærslu á lánum í þessu samhengi. Hefðu lánin í upphafi verið lögmæt hefði höfuðstóll þeirra tæplega náð þeim hæðum sem raun varð og því væri eðlilegra að tala um leiðréttingu á ólögmætum lánum, fremur en niðurfærslur í þágu heimila landsins.