FÍB: Ekki hægt að skýra hækkunina með eðlilegum hætti

Öll olíufélögin hafa nú hækkað verð á eldsneyti um 3-4 kr. Bensínlítrinn kostar nú í kringum 249 kr. og lítrinn af dísilolíu um 256 kr. Framkvæmdastjóri Félags íslenskra bifreiðaeigenda segir að ekki sé hægt að skýra þessu hækkun með eðlilegum hætti.

Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri FÍB, segir að verðið á bensínlítranum á heimsmarkaði um þessar mundir sé í svipuðu fari, og jafnvel heldur lægra, og það var þegar síðasta hækkun varð í lok janúar.

„Núna erum við að gagnrýna það að olíufélögin séu að fara fram úr sér; þrátt fyrir að það hafi orðið hækkun á heimsmarkaði eru menn að hækka umfram þá þróun sem hefur átt sér stað á heimsmarkaði það sem af er þessu ári,“ segir Runólfur.

Hann segist ekki vita hvernig forsvarsmenn félaganna ætli sér að réttlæta þessa þriggja til fjögurra kr. hækkun á bensíni. „Það er í rauninni ekki hægt að skýra það með eðlilegum hætti.“

Hann segir að dísilolíulítrinn hafi hækkað meira, en mögulega hafi kuldakastið haft töluverð áhrif á það. Í janúar hafi aftur á móti gefist tækifæri til lækkunar en það hafi ekki verið gert. „Þessi hækkun núna er umfram það sem eðlilegt er, ef menn eru ekki bara að bæta í álagningu.“

Hafa ekki efni á að reka einkabílinn með sama hætti og áður

Runólfur bendir á að tengsl séu á milli samdráttar í umferðinni og hærra eldsneytisverðs. „Almenningur hefur ekki efni lengur á að reka einkabílinn með sama hætti og áður. Svo er þetta farið á bitna á flutningskostnaði til hinna dreifðari byggða. Þetta kemur sýnu verst út fyrir þá sem þurfa að sækja þjónustu í dreifbýlinu.“

Þá bendir Runólfur á að eyðslufrekir bílar séu vart söluvara lengur á markaði. „Margir eru einmitt í þeim hugleiðingum að reyna að losa sig við eyðslufrekari ökutæki og fara þá í eyðslugrennri tæki, en það er ekki boðið upp á það á markaðinum í dag. Af því að fólk getur nánast varla losnað við þessa svokölluðu háka.“

FÍB beinir enn spjótum sínum að stjórnvöldum en félagið hefur ítrekað gagnrýnt það hversu hátt hlutfall eldsneytisverðsins renni í ríkissjóð.

Runólfur segir að það kosti venjulega fjölskyldu um 492.000 kr. á ári að reka venjulegan fjölskyldubíl miðað við núverandi verðlag og þær forsendur að bifreiðin eyði um 10 lítrum á hundraðið og 20.000 km akstur á ári. „Þar af eru skattar 239.000,“ segir Runólfur.

Samkeppni lítil

Þá bendir hann á að það sé óvenjulítill verðmunur á milli félaga, þ.e. á milli þjónustu- og sjálfsafgreiðslustöðva. „Þetta er orðið óeðlilega lítill munur og sýnir að menn eru ekki sem skyldi á tánum í samkeppni.“

Hér má sjá lista yfir eldsneytisverð.



mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert