Ölvunarakstur og líkamsárás í Reykjavík

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafði afskipti af þremur konum í nótt vegna glæpsamlegs athæfis. Fyrsta konan var stöðvuð við akstur bifreiðar á Miklubraut um klukkan hálftvö í nótt, grunuð um ölvun við akstur. Henni var sleppt að lokinni skýrslu- og sýnatöku.

Um kortéri síðar var kona handtekin grunuð um þjófnað og líkamsárás við verslun 10/11 Barónsstíg.  Öryggisvörður ætlaði að stöðva konuna eftir að hún hafði verið staðin að þjófnaði en þá réðst hún að öryggisverðinum.  Konan, sem var í annarlegu ástandi, var handtekin og vistuð í fangageymslu þar til hægt verður að ræða við hana. 

Þriðja konan var stöðvuð á Suðurlandsvegi á fjórða tímanum ið akstur bifreiðar, grunuð um akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna.  Henni var sleppt að lokinni upplýsinga og sýnatöku, að sögn lögreglu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert