Ríkið frestar vanda LSR

Miklu skiptir hvernig lífeyrismálum þjóðarinnar verður hagað í framtíðinni.
Miklu skiptir hvernig lífeyrismálum þjóðarinnar verður hagað í framtíðinni. hag / Haraldur Guðjónsson

Stjórnvöld þurfa á þessu ári taka ákvörðun um hvernig taka eigi á halla A-deildar Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins. Hallinn nam 47 milljörðum í árslok 2010. Stjórnvöld hafa ýtt vanda sjóðsins á undan sér.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins og Lífeyrissjóður hjúkrunarfræðinga eru sameiginlega stærstu lífeyrissjóðir landsins og greiða þriðjung af öllum lífeyrisgreiðslum úr íslenskum lífeyrissjóðum.

400 milljarða vandi

Hallinn á LSR samtals er um 400 milljarðar króna. Benedikt Jóhannesson tryggingastærðfræðingur sagði á ráðstefnu opinberra starfsmanna fyrir stuttu að þetta væri mikill vandi og takast yrði á við hann.

LSR er rekinn í tveimur deildum, A-deild og B-deild. B-deildin er gamli sjóðurinn, en allir yngri ríkisstarfsmenn greiða í A-deildina. A-deildin var stofnuð 1997 og henni er ætlað að standa undir sér líkt og lífeyrissjóðir á almennum markaði.

LSR tapaði 101 milljarði á hruninu sem er um fimmtungur af öllum eignum sjóðsins. Fyrir hrun var ágætt samræmi milli eigna og skuldbindinga sjóðsins, en umtalsverður halli myndaðist við hrunið og aldrei hefur verið tekið á vanda hans. Fátt bendir til þess að ávöxtun sjóðsins næstu árin dugi til að vinna upp þann mun sem er á skuldbindingum og eignum.

Heimild til að reka sjóð með 13% halla er að renna út

Hallinn á A-deildinni var i árslok 2010 47 milljarðar eða 13%, en samkvæmt lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda má hallinn ekki vera meiri en 10% og ekki meiri en 5% í fimm ár samfleytt. Eftir hrun var gerð breyting á lögum sem fól í sér að reka má sjóðina tímabundið með meiri halla. Hallinn má vera 13% árið 2012 og 11% árið 2013.

Lífeyrissjóðir á almennum markaði hafa nær allir brugðist við vanda sjóðanna með því að skerða réttindi sjóðsfélaga. Skerðingin er almennt á bilinu 10-25%.

LSR er með ríkisábyrgð sem þýðir að ef halli er á tryggingafræðilegri stöðu sjóðsins á launagreiðandinn, þ.e. ríkið, að hækka iðgjaldið. Búið er að reikna út að hækkunin þarf að vera um 4% sem þýðir milljarða í árleg viðbótarútgjöld fyrir ríkissjóð.

Fulltrúar opinberra starfsmanna í stjórn LSR hafa oftar en einu sinni lagt til að iðgjaldið verði hækkað, en stjórnvöld hafa frestað því að taka ákvörðun um það.

Það eru skattgreiðendur í landinu sem greiða iðgjald ríkisins í LSR. Margir hafa sett spurningamerki við það að sjóðsfélögum í almennu lífeyrissjóðunum sé gert að greiða hallann á A-deild LSR á sama tíma og þeir eru að taka á sig skerðingu á sínum lífeyrisréttindum.

Málið í nefnd

ASÍ hefur lagt mikla áherslu á lífeyrisréttindi launþega verði jöfnuð. Tvær nefndir eru starfandi sem hafa það hlutverk að samræma lífeyriskjör á almennum vinnumarkaði. Í dag greiða atvinnurekendur á almennum markaði 8% iðgjald. Í tengslum við síðustu kjarasamninga gerðu ASÍ og SA samkomulag um að atvinnurekendur hækkuðu iðgjaldið til samræmis við það sem er hjá ríki og sveitarfélögum. Samkvæmt því á iðgjaldið að hækka árið 2014 og á næstu sjö árum þar á eftir á það að fara upp í 11,5%, eins og ríkið greiðir í LSR.

Samkomulagið er hins vegar háð þeim fyrirvara að það liggi fyrir, eigi síðar en í ársbyrjun 2013, hver lífeyrisréttindi opinberra starfsmanna eru í reynd. Ástæðan fyrir því að þessi fyrirvari var settur er sú að menn vita af vanda LSR og markmið um jöfuð næst ekki ef ríkið ætlar að hækka iðgjald til LSR.

Ef ríkið hækkar iðgjaldagreiðslur í LSR í 15,5% taka ríkisstarfsmenn orðið mjög stóran hluta launa sinna út eftir að þeir eru komnir á lífeyri því að þeir greiða sjálfir 4% iðgjald af launum og 2-4% fara í séreignasjóð. Samtals er þetta um 25%. Margir velta fyrir sér hvort þetta hlutfall er ekki orðið of hátt og hvort það er skynsamlegt að leggja fjórðung tekna sinna í lífeyrissjóð.

Það er því allt annað en auðvelt verkefni að ná niðurstöðu um málið. Það er ekki bara erfitt vegna þess að stórar upphæðir eru í húfi heldur líka vegna þess að miklir hagsmunir eru í húfi fyrir launþegasamtökin sem gæta hagsmuna félagsmanna sinna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka