Slit meirihlutasamstarfsins í Kópavogi og upplausnin sem í kjölfarið fylgdi má rekja til þess að traust á bæjarstjóranum, Guðrúnu Pálsdóttur, þvarr. Með nýjum meirihluta hverfur Guðrún aftur til fyrri starfa hjá bænum sem sviðsstjóri. Hún er sögð njóta fyllsta trausts.
Málefni Guðrúnar voru til umfjöllunar á kynningarfundi nýs meirihluta síðdegis í dag. Þá voru Ármann Kr. Ólafsson, verðandi bæjarstjóri, og Rannveig Ásgeirsdóttir, fulltrúi Y-lista Kópavogsbúa, spurð út í það hvers vegna Guðrún gegndi ekki áfram bæjarstjórastarfinu.
Rannveig sem var í meirihluta með Samfylkingu, Vinstri grænum og Næst besta flokknum, sagði að Guðrún hefði átt undir högg að sækja hjá fyrri meirihluta og það hefði ekki verið gott veganesti fyrir hana upp á framhaldið að gera. Þá vísaði hún í viðtal við Hjálmar Hjálmarsson, fulltrúi Næst besta listans, í Kópavogsblaðinu sem kom út í dag. Rannveig sagðist taka undir allt sem þar kemur fram.
Í viðtalinu greinir Hjálmar frá því hvað hafi gerst áður en slitnaði upp úr samtarfi meirihlutans. „Síðan kemur það eins og þruma úr heiðskíru lofti 12. janúar sl. að við erum boðuð á fund með engum fyrirvara og fundarefni óljóst en á fundinum er okkur tilkynnt að Samfylkingin styðji ekki lengur bæjarstjórann og síðan tók fulltrúi Vinstri grænna undir það.“
Hjálmar segist hafa óskað eftir því að ræða við sitt fólk áður en ákvarðanir yrðu teknar og var fallist á að fundað yrði aftur um málið þremur dögum síðar, á sunnudegi. „Þrátt fyrir það hittir Guðríður Arnardóttir, oddviti Samfylkingarinnar, bæjarstjórann á tveggja manna fundi á föstudeginum þar á undan og tilkynnir henni að til standi að segja henni upp störfum og spyr bæjarstjórann jafnframt hvort hún vilji þiggja starf hjá Kópavogsbæ sem ekki var búið að móta og er ekki til í skipuriti bæjarins. Guðríður hafði því ekkert umboð til að bjóða bæjarstjóranum það.“
Meðal þeirra mála sem Hjálmar nefnir að komið hafi upp og snerti Guðrúnu eru svonefnd bílamál og peningaskápsmál.
Bílamálið kom upp í febrúar 2011 og sneri að því að fjölskyldumeðlimir Guðrúnar höfðu not af bifreið sem Kópavogsbær lagði henni til. Í kjölfarið á því sendi Guðrún frá sér yfirlýsingu þar sem sagði m.a.: „Í ljósi þess að skilningur minn og bæjarfulltrúa á því hvernig nota megi bifreiðina er ekki sá sami, hef ég tekið af öll tvímæli um það að í framtíðinni muni ég ein nota bílinn. Ég biðst afsökunar á því að hafa túlkað ráðningarsamninginn á þann veg sem ég gerði og hef jafnframt óskað eftir því að hnykkt verði á umræddu ákvæði samningsins.“
Peningaskápsmálið kom svo upp í júlí en þá var gerð óháð úttekt á peningaskáp í eigu bæjarins. Leiddi hún í ljós að óinnheimtar kröfur upp á sjö milljónir fundust, að hluta til frá því tímabili sem hún var fjármálastjóri bæjarins fram til haustsins 2008.
Meðal annarra sem hafa tjáð sig um bæjarstjóramálið er Gunnar Birgisson. Hann skrifaði grein í Morgunblaðið seint í síðasta mánuði þar sem segir að mannorð Guðrúnar sé stórskaðað eftir aðför meirihlutans. „Þessi aðför að bæjarstjóranum var mjög ógeðfelld og er öllum fjórum fyrri meirihlutaflokkunum til ævarandi skammar. [...] Meirihluti getur að sjálfsögðu skipt um bæjarstjóra sýnist honum svo en að gera það undir fölsku flaggi og með svo lítilsigldum hætti á sér fá fordæmi enda leiddi það til endaloka meirihlutans.“
Rannveig sagði á fundinum í dag að hún hefði aldrei lýst yfir vantrausti á Guðrúnu, en ljóst væri að innan fyrri meirihluta hafi henni verið gert erfitt fyrir. Hún hefði átt undir högg að sækja og því hafi verið rætt við hana um framhaldið. Niðurstaðan af þeim viðræðum hafi verið samkomulag um að hún taki við fyrra starfi. Það hafi verið gert í fullri sátt.
Einnig var rætt um hvers vegna Sjálfstæðisflokkurinn hefði fengið bæjarstjórastólinn og hvort hann hefði gert um það skýlausa kröfu. Því var harðneitað og sagði Rannveig að þetta hefði verið niðurstaðan eftir hreinskiptnar umræður.