Bergur Elías Ágústsson, bæjarstjóri Norðurþings, og Halldór Jóhannsson, talsmaður Huang Nubo hér á landi, eru nú á leið til Kína til fundar við Huang um fjárfestingar í Norðurþingi.
„Þetta eru tilraunir okkar til að ná þessari fjárfestingu inn á þetta svæði og við leggjum mikið á okkur til þess,“ segir Gunnlaugur Stefánsson, forseti bæjarstjórnar Norðurþings. Þar á meðal sé sá möguleiki að Norðurþing kaupi Grímsstaði á Fjöllum með láni frá Huang og leigi honum síðan landið áfram.
Þegar spurt er um lagahlið málsins segir Gunnlaugur að hún hafi ekki verið skoðuð sérstaklega. Hún hljóti hins vegar að vera kleif þar sem hér sé rætt um leigu en ekki kaup á landi.