Björn Valur Gíslason, þingflokksformaður Vinstri grænna, fjallar um nýjan meirihluta í Kópavogi á vefsvæði sínu í kvöld. Hann segir að gjörspilltir stjórnmálamenn séu komnir aftur til valda og ekki þurfi að óttast að þeir láti almennar leikreglur stöðva sig.
Í pistli sínum segir Björn Valur að siðbót hafi orðið í Kópavogi með nýjum meirihluta. „Hún felst í því fjölskyldumaðurinn Gunnar Birgisson og Kópavogsborgarinn Ómar Stefánsson voru færðir til valda að nýju af þeim sem sögðust alls ekki vilja hafa þá við stjórnvölinn.“
Þá segir Björn Valur að nú sé ástandið því á nýjan leik orðið eðlilegt í bænum. „Pólitíska siðbótin í þessu ágæta sveitarfélagi virðist því annarsvegar felast í því að gjörspilltir stjórnmálamenn fá aftur sín fyrri völd og hinsvegar að stutt fjarvera Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks úr meirihlutanum var aðeins minniháttar frávik frá þeirri meginreglu að þessir tveir flokkar stjórni því sem þeir vilja.“