Hátt brottfall úr skólum á Íslandi

Grunnskólanemar kynna sér fornleifafræði.
Grunnskólanemar kynna sér fornleifafræði. mbl.is/Kristinn

Ísland kemur afar illa út úr nýrri samanburðarrannsókn OECD á brottfalli úr skólum. Upp undir 30% Íslendinga á aldrinum 25-34 ára hættu í skóla áður en þeir luku stúdentsprófi og skipar Ísland sér þar í flokk með Grikklandi, Ítalíu, Mexíkó, Portúgal og Spáni.

Í nýrri skýrslu OECD kemur fram að í dag skorti marga nemendur grundvallarfærni samkvæmt mælikvörðum PISA og að meðaltali hættir 1 af hverjum 5 íbúum OECD-landa í skóla án stúdentsprófs. Mikill munur er hinsvegar á brottfalli úr skólum milli landa. Minnst er brottfallið í Kóreu, aðeins 2%, en mest í Tyrklandi, eða 58%.

Lönd eins og Slóvakía, Tékkland, Pólland, Kanada, Finnland og Svíþjóð koma vel út úr könnuninni, þar sem brottfall þar er innan við 10%, en Ísland er hinum megin á skalanum, langt yfir meðaltalinu, og er brottfall aðeins meira hér en í fjórum öðrum löndum OECD. Tölurnar eru frá árinu 2009.

Í skýrslunni segir að þeir sem eru líklegri til að standa sig illa eða hætta í skóla búi oftast við fátækt, séu úr innflytjendafjölskyldum eða eigi ómenntaða foreldra. OECD segir mikilvægt að ríkisstjórnir setji meiri fjármuni í skóla og nemendur sem eigi á brattan að sækja í menntakerfinu til að tryggja að allir búi við jafnan rétt. Með því að aðstoða meira þá sem eiga erfitt með að fóta sig í skólakerfinu sé hægt að draga úr brottfalli, auka hagvöxt og stuðla að jafnara samfélagi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert