Séreignarsparnaður hefur almennt ekki áhrif á útreikning lífeyrisgreiðslna (elli-, örorku-, slysa- og endurhæfingarlífeyris og tengdra greiðslna) frá Tryggingastofnun, að því er fram kemur á vef stofnunarinnar.
„Úttekt séreignarsparnaðar hefur eingöngu áhrif á uppbætur á lífeyri, þ.e.a.s. uppbót vegna kostnaðar (t.d. mikils lyfjakostnaðar) og sérstaka uppbót vegna framfærslu, svokallaða lágmarksframfærslutryggingu, sem tryggir öllum lífeyrisþegum lágmarksgreiðslu ef tekjur þeirra eru undir ákveðnum viðmiðum.
Viðmiðin eru nú eftirfarandi:
Lífeyrisþegi sem býr einn og er með heimilisuppbót: 203.005 kr. á mánuði.
Lífeyrisþegi sem er í sambúð og því ekki með heimilisuppbót: 174.946 kr. á mánuði,“ segir í frétt á vef TR.