Hringdi í pabba sinn eftir hjálp

Vatnajökull
Vatnajökull mbl.is/Rax

Breskur ævintýramaður, sem sóttur var ásamt félaga sínum af björgunarmönnum á Vatnajökul í gærmorgun, hringdi í föður sinn á Bretlandi eftir aðstoð. Faðirinn hringdi síðan í bresku strandgæsluna og þaðan barst beiðni um aðstoð til Neyðarlínunnar. 

Tjald þeirra fauk um koll og súlurnar brotnuðu. Þeir vöfðu þá teppum utan um sig en voru farnir að óttast aðstæður. Lítið var eftir af rafhlöðunni í gervihnattasíma þeirra og ákváðu þeir því að hringja í föður Hibberts, til Portsmouth í Hampshire.

Þetta segir maðurinn, Alex Hibbert, í viðtali við Mail Online. Hibbert er vanur fjalla- og útivistarmaður

Faðirinn, Richard Hibbert, er foringi í breska hernum og hann hafði þegar samband við strandgæsluna. Það var skömmu eftir miðnætti í gær. Strandgæslan tilkynnti þá Landhelgisgæslunni ástandið og að lokum var haft samband við Neyðarlínuna.

„Alex var mjög rólegur þegar hann hringdi,“ segir faðir hans í samtali við Mail Online. „Ég sagði honum að hann fengi aðstoð, ég hringdi í strandgæsluna sem brást skjótt við.“

„Björgunin tókst vel og þegar ég talaði við hann í gærkvöldi var hann á leiðinni í heitt bað,“ sagði Hibbert eldri.

Alex Hibbert sagði í samtali við Mail Online að þeir félagarnir hefðu ferðast samtals um 50 kílómetra um jökulinn. Hann er vonsvikinn yfir að hafa ekki getað klárað ferðina, en hyggur á aðra ferð eins fljótt og hægt er.

Talsmaður bresku strandgæslunnar segir í samtali við Mail Online að gæslan sé vissulega ánægð með að hafa getað veitt aðstoð. En hann bendir jafnframt á nauðsyn þess að ferðalangar kynni sér neyðarnúmer í þeim löndum sem þeir heimsækja.

Umfjöllun Mail Online

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert