Jóna Valgerður Kristjánsdóttir, formaður Landssambands eldri borgara, gagnrýnir harðlega tekjutengingar í almannatryggingakerfinu. Fólk spyrji sig til hvers það sé að greiða í lífeyrissjóð. Það kostar tvo milljarða að hætta að tekjutengja grunnlífeyri.
Jóna Valgerður situr í nefnd sem á síðasta ári var falið að endurskoða löggjöf um almannatryggingar. Tólf eru í nefndinni, alþingismenn og fulltrúar hagsmunasamtaka. Upphaflega stóð til að nefndin lyki störfum fyrir áramót, en enginn fundur hefur verið haldinn í henni frá því Öryrkjabandalagið dró sína fulltrúa út úr starfi nefndarinnar í síðasta mánuði. Óljóst er um framhald nefndarstarfsins en launþegasamtökin hafa lýst áhuga á að koma að vinnu nefndarinnar.
Jóna Valgerður segir eldri borgara leggja mikla áherslu á að dregin verði til baka ákvörðun stjórnvalda um að tekjutengja grunnlífeyri, en hún kom til framkvæmda í 1. júní 2009. Þetta varð til þess að sá hópur eldri borgara sem fær ekkert frá TR stækkaði mikið. Á síðasta ári fengu um 2.800 færri einstaklingar greiddan grunnlífeyri frá TR en árið 2008 þrátt fyrir að eldri borgurum hefði fjölgað á þessu tímabili. Til viðbótar fá mjög margir skertan grunnlífeyri.
Jóna Valgerður segir að svarið sem eldri borgarar fái frá ríkinu sé að það kosti Tryggingastofnun tvo milljarða að hætta að tekjutengja grunnlífeyri. Hún segir mikla óánægju með þessar tekjutengingar enda eigi þær þátt í að festa fólk í fátæktargildru. „Fólk spyr sig til hvers það var að borga í lífeyrissjóð,“ segir Jóna Valgerður.
Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra hefur ekki tekið undir gagnrýni á tekjutengingarnar og bendir á að almannatryggingarkerfinu sé ætlað að halda utan um það fólk sem litlar eða engar tekjur hafi þegar það kemst á lífeyri. „Ráðherrann talar eins og við séum að öfundast yfir því að fólk hafi þessar lágmarksbætur. Málið er að það er bara svo erfitt að komast upp úr þessum lágmarksbótum. Þær eru bara fátæktargildra. Það er algengt að almennt launafólk fái 70 þúsund krónur frá lífeyrissjóðum á mánuði, en það sem fólk heldur eftir er nákvæmlega það sama eins og þú hefðir aldrei greitt í lífeyrissjóð. Þetta svíður fólki auðvitað. Það eru allir fastir í þessari fátæktargildru, nema þeir sem fá hundruð þúsunda króna á mánuði úr lífeyrissjóði.“
Jóna Valgerður segir að bætur Tryggingastofnunar hafi verið skertar 2009 og síðan hafi lífeyrissjóðirnir skert réttindi um 8-20% vegna áfalla sem þeir urðu fyrir í hruninu. Síðan bætist þessar tekjutengingar við.