Leggur til lækkun á hesthús

Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins hefur sent formanni efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis, Helga Hjörvar, tillögu um breytingar á lögum um fasteignaskatt á hesthús í þéttbýli.

Leggur Guðlaugur Þór til að hesthús í þéttbýli verði flokkuð og skattlögð á sama hátt og hesthús í dreifbýli, þ.e. í flokki A, en ekki í flokki C eins og nú er gert ásamt t.a.m. iðnaðar-, verslunar- og skrifstofuhúsnæði.

Hestamennska á ekki bara að vera fyrir ríkt fólk!

Í bréfi Guðlaugs Þórs til Helga Hjörvar, sem fréttastofu barst nú síðdegis undir yfirskriftinni „Hestamennska á ekki bara að vera fyrir ríkt fólk!“ segir:

„Gríðarlegar hækkanir hafa orðið á fasteignagjöldum hjá eigendum hesthúsa. Kemur það í kjölfar þess að yfirfasteignamatsnefnd ríkisins úrskurðaði að hesthús í Árborg skyldi sett í flokk C.

Vegna þessa hef ég sent formanni Efnahags- og viðskiptanefndar bréf og lagt til við hann að nefndin leggi til við þingið breytingu á lögum laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga. Sjá tillögu.

Ástæðan er einföld. Hestaíþróttir eru almennings- og fjölskylduíþrótt á Íslandi og ég vil að þannig verði það áfram,“ segir í bréfi Guðlaugs Þórs.

Tillaga Guðlaugs Þórs Þórðarsonar til efnahags- og viðskiptanefndar:

Lagt er til að við upptalninguna í a. lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga verði bætt við hesthúsum í þéttbýli.

Greinargerð:

Samkvæmt núgildandi lögum falla hesthús í dreifbýli þ.e. á bújörðum undir a. lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995.  Þannig að núna er lagður mismunandi fasteignaskattur á sömu tegundir eigna eftir því hvar þau eru staðsett þ.e. hærri skattur er á hesthús sem eru í þéttbýli.  Verður þetta fyrirkomulag að teljast mjög óeðlilegt m.a. með tilliti til jafnræðis en það er alkunn regla að allir skulu vera jafnir þegar að skattlagningu kemur.

Það skal einnig tekið fram að hesthús í þéttbýli eru að miklum meirihluta notuð undir frístundaiðkun eigenda.  Fjöldi manns stundar hestamennsku í frístundum og hefur fjárfest í hesthúsum vegna þessa.  Í stað þess að fjárfesta t.d. í frístundahúsum (sumarbústöðum), sem falla undir a. lið 3. mgr. 3. gr., hefur fólk ákveðið að fjárfesta í hesthúsum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert