Náðu saman um málefnasamning

Ómar Stefánsson, oddviti Framsóknarflokksins.
Ómar Stefánsson, oddviti Framsóknarflokksins. mbl.is/hag

Oddvitar Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Y-lista Kópavogsbúa hafa náð niðurstöðu um málefnasamning flokkanna þriggja eftir fundahöld um myndun nýs meirihluta í bæjarstjórn undanfarna daga. Oddvitarnir funduðu langt fram á kvöld í gær.

„Já, það má segja að niðurstöðu hafi verið náð,“ segir Ómar Stefánsson, oddviti Framsóknar í Kópavogi. „Nú þarf að fínlesa samninginn á öllum vígstöðvum. Við gerum ráð fyrir að bæjarfulltrúar flokkanna þriggja lesi yfir hann í dag og skrifi síðan undir hann.“

Samningurinn verður lagður fyrir fulltrúaráð flokkanna síðar í dag.

Spurður að því hver verði bæjarstjóri þessa næststærsta sveitarfélags landsins, vildi Ómar engu svara.

Ertu ánægður með málefnasamninginn? „Það eru málamiðlanir í öllum samningum,“ svaraði Ómar.

Ármann Kr. Ólafsson, oddviti sjálfstæðismanna, staðfesti þetta í samtali við mbl.is. „Já, við erum búin að ná niðurstöðu um málefnasamning. Hann verður kynntur í fulltrúaráði okkar í kvöld og ég tjái mig ekkert um innihald hans fyrr en eftir það.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka