Borgarbyggð mun nota þá peninga sem sveitarfélagið fær fyrir sölu á 0,7044% eignarhlut í Faxaflóahöfnum til að lána Orkuveitu Reykjavíkur í samræmi við ákvörðun eigenda fyrirtækisins á síðasta ári um að veita því víkjandi lán.
Borgarráð samþykkti á fundi sínum í dag að gera 75 milljóna kauptilboð í 0,7044% eignarhlut Borgarbyggðar í Faxaflóahöfnum sf.
Borgarbyggð á 4,8% hlut í Faxaflóahöfnum, en eftir söluna fer hluturinn niður í 4,1%. Bjarki Þorsteinsson, forseti bæjarstjórnar Borgarbyggðar, segir að sveitarfélagið muni áfram verða með mann í stjórn Faxaflóahafna.
Bjarki segir að Borgarbyggð hafi ekki átt fjármagn til að veita Orkuveitunni víkjandi lán líkt og Reykjavík og Akranes voru búin að gera. Hann segir að mönnum hafi ekki litist á að sveitarfélagið tæki lán til að lána OR. Að hans mati sé salan á 0,7% hlut í Faxaflóahöfnum farsæl lausn á þessu máli.