Setur dagsektir á Arion banka

Arion banki
Arion banki

Persónuvernd hefur lagt fyrir Arion banka að breyta verklagi sínu við skráningu kennitalna við gjaldeyrisviðskipti. Það á að gera fyrirr 10. febrúar. Að öðrum kosti komi dagsektir, til framkvæmda.

Persónuvernd úrskurðaði um þetta sama mál í júní á síðasta ári, en í nýjum úrskurði stofnunarinnar kemur fram að bankinn hafi ekki enn breytt framkvæmdinni.

Í bréfi sem Arion banki sendi Persónuvernd í nóvember á síðasta ári segir: „Arion andmælir ekki því mati Persónuverndar, að núverandi verklag bankans byggi á því að hinn skráði verði að andmæla vinnslu. Þá tekur Arion banki undir það mat Persónuverndar að ef ekki er fyrir hendi lagaheimild sem kveður á um vinnslu persónuupplýsinga, verði slík vinnsla að byggja á skýru og ótvíræðu samþykki hins skráða.

Arion banki getur þó ekki hjá því komist að lýsa yfir áhyggjum sínum á þeirri þróun mála sem er að eiga sér stað í eftirliti með peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, vegna úrskurða Persónuverndar.

Það er enn sem fyrr mat bankans að bæði 3. og 5. tölul. 8. gr. persónuverndarlaga gildi um umrædda vinnslu, og að umrædd vinnsla þurfi því ekki að byggja á skýru og ótvíræðu samþykki hins skráða.

Tilgangur laga nr. 64/2006 er að standa vörð um brýna almannahagsmuni, þ.e. leitast við að koma í veg fyrir peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Ef ekki er unnt að rekja slóð fjármuna, torveldar það hugsanlegar rannsóknir yfirvalda og eykur hættuna á því að íslensk fjármálstarfsemi verði misnotuð, með augljósri áhættu. Þetta hefur í för með sér að auðveldara er að koma undan illa fengnu fé (s.s. vegna fíkniefnaviðskipta eða skattsvika) og jafnvel að fjármagna hryðjuverkastarfsemi, með mögulega ógnvænlegum afleiðingum.“

Persónuvernd segir í nýjum úrskurði sínum að Persónuvernd minni á „að fyrir liggur skýr afstaða löggjafans til þess hvenær heimilt er að framkvæma áreiðanleikakönnun á viðskiptamönnum, m.a. vegna gjaldeyriskaupa. Engin réttaróvissa er í þeim efnum. Einungis löggjafinn sjálfur getur breytt lögum og er það hvorki á valdi Arion banka né einstakra stjórnvalda að breyta þeim.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert