Viðræður standa enn yfir við Huang Nubo um fjárfestingar í Norðurþingi, að sögn Bergs Elías Ágústssonar, bæjarstjóra Norðurþings, en hann er nú staddur í Peking og hefur fundað með Huang í dag.
Bergur Elías segist ekki geta tjáð sig efnislega um viðræður þeirra en segir að þær haldi áfram. Hann áætlar að snúa aftur heim á miðvikudaginn í næstu viku og því eru nokkrir dagar til stefnu. Meðal þeirra möguleika sem eru á samningaborðinu er að Norðurþing kaupi Grímsstaði á fjöllum með láni frá Huang og leigi honum síðan landið áfram.
Aðspurður segir Bergur Elías að ferðin til Kína sé alfarið að frumkvæði sveitarfélagsins enda ljóst að uppbygging á Grímsstöðum á Fjöllum myndi vega þungt ef af yrði. „Það er okkar megin frá, þar sem við höfum það markmið að efla okkar ferðaþjónustu á Norðurlandi og reyna að fá farsæla lausn í þetta áhugaverða mál."