Svavar Halldórsson, fréttamaður á RÚV, hefur fengið tugi hótana frá útrásarvíkingum og lögmönnum þeirra um málsókn, ýmist með tölvubréfum eða símskeytum.
Í umfjöllun um þetta í Morgunblaðinu í dag segir, að Svavari reiknast til að formlegar hótanir séu líklega um 20 talsins. Nú hefur Jón Ásgeir Jóhannesson áfrýjað til Hæstaréttar dómi Héraðsdóms Reykjaness frá í nóvember sl. þegar Svavar var sýknaður af kröfu Jóns um meiðyrði.
Krafðist Jón Ásgeir þess að ummæli í frétt Svavars frá 6. desember 2010, um svonefnda Panama-fléttu þeirra Jóns, Pálma Haraldssonar í Fons og Hannesar Smárasonar, yrðu dæmd dauð og ómerk. Héraðsdómur féllst ekki á þá kröfu og var Jóni Ásgeiri gert að greiða Svavari eina milljón króna í málskostnað. Krafðist Jón greiðslu á 3 milljónum í miskabætur. Þess má geta að Pálmi hætti við málsókn út af sömu frétt Svavars.